Erlent

Hrókeringar í ríkisstjórn Noregs

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Anundsen hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá árinu 2013.
Anders Anundsen hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá árinu 2013. Vísir/Getty
Norskir fjölmiðlar greina frá því að breytingar verði gerðar í ráðherraliði Noregs, en tilkynnt var í gær að tveimur ráðherrum úr röðum Framfaraflokksins verði skipt út.

Norski dómsmálaráðherrann Anders Anundsen og olíu- og orkumálaráðherrann Tord Lien munu yfirgefa ríkisstjórnina, en í þeirra stað koma þeir Per-Willy Amundsen og Terje Søviknes.

Þeir Anundsen og Lien hafa átt sæti í ríkisstjórn Ernu Solberg, allt frá því að hún tók við völdum í október 2013.

Í frétt NRK segir að hrókeringarnar komi sumpart ekki á óvart þar sem Anundsen hafi greint frá því í sumar að hann hugðist láta af ráðherradómi. Þá hefur hann lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri til norska þingsins. Hann hefur sætt nokkurri gagnrýni vegna orða um að hann vilji senda hælisleitendur á barnsaldri úr landi.

Amundsen er þingmaður Troms og var lengi talsmaður Framfaraflokksins í málefnum innflytjenda. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 2005 og hefur meðal annars sagst vera efasemdamaður í umræðunni um loftslagsmál.

Búist er við að greint verði formlega frá ráðherrabreytingunum á morgun.

Hægriflokkur Solberg og Framfaraflokkurinn mynda saman minnihlutastjórn í Noregi, en stjórnin nýtur stuðnings Frjálslynda flokksins og Kristilega þjóðarflokksins.


Tengdar fréttir

Minni tekjur af olíu í Noregi

Frá því að verð á olíu hrundi árið 2014 hafa yfir 40 þúsund manns misst vinnuna í Noregi samkvæmt úttekt Aftenbladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×