Viðskipti innlent

Íslendingar flýja land enn sem áður

Jakob Bjarnar skrifar
Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að hér sé mikill efnahagslegur uppgangur halda Íslendingar áfram að flýja land.
Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að hér sé mikill efnahagslegur uppgangur halda Íslendingar áfram að flýja land. visir/friðrik þór
Samkvæmt nýjum tölum sem Hagstofan var að birta eru Íslendingar, þrátt fyrir uppgang, að flýja land. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang eru 110 umfram aðflutta. Þetta er á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016. Á móti kemur að aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.110 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Vísir hefur fjallað um landflóttann og áhyggjur af því að þar sé um spekileka að ræða, þetta eru ekki kreppuflutningar og eru vísbendingar um að margt háskólafólk sé að flytja úr landinu. Þetta er samkvæmt athugunum Ásgeirs Jónssonar dósents í hagfræði við HÍ.

Einkum eru það Danmörk sem er áfangastaður brottfluttra Íslendinga, þangað fluttust 190 manns á 1. ársfjórðungi, til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 460 íslenskir ríkisborgarar af 710 alls. Flestir erlendra ríkisborgara sem yfirgáfu Ísland fóru til Póllands, eða 130 manns.

Í tölunum kemur fram að í lok 1. ársfjórðungs 2016 bjuggu 334.300 manns á Íslandi, 168.360 karlar og 165.930 konur og hafði landsmönnum fjölgað um 1.540 á ársfjórðungnum. „Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 214.740 manns en 119.560 utan höfuðborgarsvæðis, segir í tilkynningu frá Hagstofunni: „„Á 1. ársfjórðungi 2016 fæddust 980 börn, en 590 einstaklingar létust.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×