Það matsferli er gagnlegt fyrir stefnumótun og lagasetningu hér á landi, að því er kemur fram í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn um starf stýrihóps á vegum innanríkisráðherra, um eftirfylgni við innleiðingu á alþjóðlegum samningum gegn mútum og spillingu.
Starf hópsins, sem starfað hefur í tæpt ár, hefur einkum snúist um að veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf og gera tillögur um viðbrögð við tilmælum alþjóðlegra stofnana á þessu sviði. Auk eftirfylgni frá SÞ hefur Ísland fengið tilmæli frá vinnuhópi OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, og GRECO, samtökum ríkja gegn spillingu innan Evrópuráðsins. Tilmæli GRECO í fjórðu skýrslunni um Ísland snerust um að fyrirbyggja spillingu og hagsmunaárekstra hjá alþingismönnum, dómurum og ákærendum.

„Í siðareglunum er einnig að finna ákvæði sem ætti að koma til móts við tilmælin um að þingmenn upplýsi um mögulega hagsmunaárekstra við meðferð mála vegna persónulegra hagsmuna sem þeir kunna að hafa. Því má ætla að íslensk stjórnvöld hafi í raun uppfyllt fern tilmælanna. GRECO þarf þó að staðfesta þá niðurstöðu á fundi sínum síðar á þessu ári,“ segir jafnframt í svari ráðuneytisins.
Tilmæli sem lúta að bættri skráningu á fjárhagsupplýsingum þingmanna hafa ekki verið uppfyllt að mati GRECO. Samkvæmt tilmælum GRECO skulu liggja fyrir upplýsingar um eignir þingmanna og framlög sem þeir hafa fengið ásamt upplýsingum um skuldir þeirra, að undanskildum húsnæðislánum og skammtímaskuldum innan eðlilegra marka. Þá eigi að taka til skoðunar að yfirlit um eignir nái einnig til maka og nánustu ættingja þó ekki þurfi nauðsynlega að gera þær upplýsingar opinberar. Alþingi tryggi trúverðugleika þessarar skráningar á fjárhagsupplýsingum með því að fylgja henni betur eftir. Það verði gert með auknu eftirliti, ráðgjöf til þingmanna og viðurlögum gagnvart þeim sem ekki fara eftir reglunum.
Tilmælin eru nú til skoðunar hjá Alþingi, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins. „Uppi eru ýmis sjónarmið meðal þingmanna um hvort skrá eigi skuldir umfram húsnæðislán og skammtímaskuldir en ríkari andstaða gegn því að skrá hagsmuni maka og ættmenna. Mörgum þingmönnum finnst nóg á maka sína og ættmenni lagt með einni saman þátttöku í stjórnmálum.“
GRECO telur uppfyllt tilmæli um að fyrir hendi sé málsskot á ákvörðunum fyrsta stigs ákæruvalds vegna rannsóknar mála og einnig tilmæli um að ákvarðanir á fyrsta stigi ákæruvaldsins séu teknar með sjálfstæðum og hlutlægum hætti.