Saga Skallagríms Kveldúlfssonar, landnámsmanns Borgarfjarðar, og sonar hans, Egils Skallagrímssonar, eins og hún birtist í Egilssögu, er einhver magnaðasta frásögn Íslendingasagna. Þeir feðgar eru viðfangsefni Landnemanna á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld 7. mars, klukkan 20.15.
„Egill er samkvæmt sögunni alger fjöldamorðingi,“ segir Kjartan Ragnarsson í þættinum en bendir jafnframt á að Egill hafi um leið verið eitt mesta skáld síns tíma og tilfinningavera. Kjartan og kona hans, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, segja frá Landnámssetri Íslands í Borgarnesi, sem þau stofnuðu fyrir áratug, en þar er bæði landnáminu og Egilssögu gerð skil.

„Við trúum því að þetta hafi allt saman gerst,“ segir Sigríður Margrét, en viðurkennir þó að kannski hafi eitthvað verið fært í stílinn í Egilssögu.
Egill var siðblindur fjöldamorðingi og geðklofi sem fann leiðina til hjarta síns, segir Benedikt Erlingsson leikari, sem sýnt hefur einleikinn Mr. Skallagrimsson 400 sinnum í Landnámssetrinu.

Í þættinum eru raktar ástæður þess að feðgarnir Kveldúlfur og Skallagrímur flúðu Noreg. Sögusvið Egilssögu er skoðað, velt upp sannleiksgildi hennar og hvort mögnuð lýsing á bardögum og ránsferðum Egils sé raunsönn.
Rætt er við Torfa Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, um gildi Egilssögu sem bókmenntaverks. Hann segir Egilssögu úthugsað listaverk en dregur jafnframt í efa gildi hennar sem sagnfræði. Torfi ritaði bókina Skáldið í skriftinni, um Snorra Sturluson og Egilssögu, en margir fræðimenn hallast að því að Snorri sé höfundur Egilssögu.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum.