Enski boltinn

Firmino vonast til að Klopp geri sig að Neymari Liverpool-liðsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roberto Firmino fagnar marki á móti Leicester.
Roberto Firmino fagnar marki á móti Leicester. vísir/getty
Roberto Firmino, sóknarmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, vill verða Neymarinn hjá sínu liði og vonast til að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hjálpi honum á þeirri vegferð.

Firmino byrjar nýtt tímabil vel en hann er búinn að skora tvö mörk og leggja upp eitt í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. Hann skoraði tíu og lagði upp átta í 31 deildarleik á síðustu leiktíð.

Brassinn spilaði í fjögur ár með Hoffenheim í Þýskalandi áður en hann gekk í raðir Liverpool en þar mætti hann Dortmund-liði Jürgen Klopp reglulega. Hann var mikill aðdáandi Þjóðverjans og fagnaði því mikið að fá að spila undir hans stjórn.

„Ég veit hvað Klopp vill fá frá leikmönnum sínum. Þegar ég heyrði að hann yrði stjóri Liverpool var ég svo ánægður. Ég gat eiginlega ekki verið ánægðari,“ segir Firmino í viðtali við Daily Mail.

„Ég vissi hvað hann átti eftir að koma með á Anfield. Hann kemur með ákveðið vinnusiðferði og leikstíl frá Þýskalandi og liðið er að aðlagast þessu. Vinátta okkar er hrein. Hann er frábær maður og ef maður bara gerir það sem hann biður mann um er ekki hægt að bregðast honum.“

Firmino er mikill aðdáandi samlanda síns Neymars sem raðar inn mörkum og leggur þau upp fyrir Barcelona í spænsku 1. deildinni og í Meistaradeildinni. Hann vonast til að verða jafngóður fyrir Liverpool og Neymar er fyrir Barcelona.

„Getur hann gert mig að Neymar Liverpool-liðsins? Það fer allt eftir mér,“ segir Roberto Firmino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×