Enski boltinn

Bellerin skorar á Usain Bolt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það vantar ekki sprengikraftinn í Hector Bellerin.
Það vantar ekki sprengikraftinn í Hector Bellerin. vísir/getty
Hinn eldfljóti bakvörður Arsenal, Hector Bellerin, hefur skorað á fljótasta mann allra tíma, Usain Bolt, í kapphlaup.

Bellerin á fljótasta 40 metra sprett í sögu Arsenal sem hann hljóp á 4,42 sekúndum. Hann braut með því met Theo Walcott.

Jamaíkamaðurinn Bolt á heimsmetið í 100 og 200 metra hlaupi. Heimsmet hans í 100 metra hlaupi er 9,58 sekúndur.

Í heimsmetshlaupi Bolt fór hann fyrstu 40 metrana á 4,64 sekúndum sem er lakari tími en hjá Bellerin. Í raun hefði Bellerin verið tveim metrum á undan honum eftir 40 metra. Eins og allir vita setur Bolt síðan nítróið á eftir það og flýgur í mark.

„Það þarf ekkert að spyrja mig út í hvort ég vilji fara í kapphlaup við Bolt. Ég er búinn að vera að bíða eftir símtali frá Jamaíka. Ég skoraði á hann fyrir löngu síðan og þá sagði hann kannski eftir Ríó. Ég er að bíða en kannski þarf að fara að ýta við honum,“ sagði Bellerin.

Það er klárt að margir myndu vilja sjá þetta hlaup og spurning hvort Bellerin geti haldið í við Bolt í heila 100 metra?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×