Viðskipti innlent

Leggja fram frumvarp um höftin á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hanna
Frumvarp um losun fjármagnshafta verður lagt fram á Alþingi á morgun. Er því ætlað að auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja til fjármagnshreyfinga til og frá landinu. Sigurður Ingi Jóhannesson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjórinn Már Guðmundsson kynntu í dag efni frumvarpsins.

Frumvarpið er liður í því að losa fjármagnshöftin en samkvæmt tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu er um að ræða veigamikil skref í átt að fullri losun haftana. Frumvarpið er unnið í samræmi við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.

 

  • Þar kemur fram að í frumvarpinu er lagt til að við gildistöku frumvarpsins verði bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en hún verður háð staðfestingu Seðlabankans.
  • Þá verði „fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki,  að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
  • Einstaklingum muni þar að auki geta keypt eina fasteign erlendis á ári hverju óháð verði hennnar og tilefni kaupanna.
  • Dregið verði úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldreyri. Skyldan verði afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki eða til fjárfestinga erlendis.
  • Ýmsar takmarkanir verði afnumdar eða rýmkaðar. Þar á meðal heimildi einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri.
  • Þá verði heimildir Seðlabankans til upplýsingaöflunar auknar „svo hann geti betur stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.“


Þann fyrsta janúar er gert ráð fyrir því að heimildir einstaklinga til að kaupa gjaldeyri verði rýmkaðar verulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×