Innlent

Stöð 2 fagnar þrítugsafmæli í dag

Ásgeir Erlendsson skrifar
Í dag eru þrjátíu ár síðan Stöð 2 hóf útsendingar. Hans Kristján Árnason, annar stofnandi stöðvarinnar, segist muna eftir fyrsta útsendingadeginum eins og hann hafi gerst í gær enda gekk hann ekki áfallalaust fyrir sig.

Jón Óttar Ragnarsson og Hans Kristján Árnason voru búnir að ganga með hugmynd í maganum um einkarekna sjónvarpsstöð í rúm tvö ár þegar loksins kom að fyrsta útsendingardegi Stöðvar 2, þann 9. október 1986.

„Ég man nánast allt þennan dag því þetta var svo stór dagur. Ávarp Jóns Óttars, hljóðlausa, með indverjan með túrbaninn skríðandi í gólfinu.“ Segir Hans Kristján.

Jón Óttar flutti ávarp sitt á sama tíma og Reagan bandaríkjaforseti kom til landsins og fyrsti þátturinn á dagskrá Stöðvar 2 var grínþátturinn Spitting Image, þar sem grín var gert að forsetanum.

„Við hlógum eins og asnar. Faðir minn hringdi í mig og spurði mig, ertu vitlaus? Hvernig dettur ykkur í hug að bjóða forseta Bandaríkjana velkominn með svona þætti?“

Hans Kristján heldur enn upp á fyrstu dagskrá stöðvarinnar sem hann vélritaði sjálfur.

„Þetta voru skemmtilegustu ár ævi minnar.“

Á afmælisdeginum er Hans Kristján stoltur af afkvæminu.

„Ég er mjög stoltur.“ Segir Hans Kristján Árnason.

Sérstakur afmælisþáttur Stöðvar 2 í stjórn Loga Bergmann er á dagskrá klukkan 20:45 í kvöld, í opinni dagskrá.

Gestir þáttarins eru allir tengdir Stöð 2 með einum eða öðrum hætti og má meðal annars nefna Pál Magnússon, Eddu Andrésdóttur, Helgu Brögu, Sigurjón Kjartansson, Pétur Jóhann, Sveppa, Steinda Jr., Auðunn Blöndal, Emmsjé Gauta, Eddu Björg, Örn Árnason, Gumma Ben, Sigrúnu Ósk, Lóu Pind, Kristján Má og marga fleiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×