Lífið

Eric Clapton landaði þeim langstærsta í Vatnsdal

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Laxinn var hvorki meira né minna en 108 sentímetrar.
Laxinn var hvorki meira né minna en 108 sentímetrar. Mynd/vatnsdalsa.is
Tónlistarmaðurinn Eric Clapton datt heldur betur í lukkupottinn við veiði í Vatnsdalsá síðastliðinn föstudag, þegar hann landaði glæsilegum laxi. Fiskurinn var engin smásmíði, eða 108 sentímetrar og 28 pund. „Já þetta var stór fiskur og tók um tvo og hálfan klukkutíma. Stærsti fiskurinn á Vatnsdal,“ segir Sturla Birgisson, leiðsögumaður Clapton, í samtali við Vísi.

Tónlistarmaðurinn góðkunni var einstaklega ánægður með fenginn. „Þetta er stærsti fiskur sem hann hefur landað, langstærsti,“ segir Sturla.

Clapton notaði flugu sem kallast Night Hawk í stærð 14 og virðist það heldur betur hafa borgað sig. Til að byrja með lét laxinn lítið fyrir sér fara en áttaði sig fljótt á að ekki var allt með felldu og reyndi að forða sér. Við tók um kílómeters langur eltingaleikur.

Sturla Birgisson, leiðsögumaður Clapton, er hér með laxinn góða.Mynd/vatnsdalsa.is
Draumalax

Bæði laxinn og tónlistarmaðurinn voru uppgefnir eftir eltingaleikinn, en jöfnuðu sig innan tíðar og laxinn kvaddi veiðimenn með vænni skvettu. 

Eins og fyrr segir er þetta stærsti fiskur sem Clapton hefur landað en hann hefur verið að koma hingað til lands í veiði í 15 ár. „Hann var fyrst í Laxá á Ásum og var í nokkur ár þar og svo er hann að veiða núna í Vatnsdal,“ segir Sturla. Aðspurður segist Sturla ekki hafa áhyggjur af því að Clapton hætti að koma eftir þennan draumalax. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×