Lífið

Taskan sem bjargar málunum

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Rakel Karlsdóttir, vinnur nú af fullum krafti við að koma vörunum sínum á markað.
Rakel Karlsdóttir, vinnur nú af fullum krafti við að koma vörunum sínum á markað. Mynd/Rakel Karlsdóttir
Taskan “The Period Pouch” er eins og verkfærataska, hún inniheldur allt það sem þú þarft á að halda þegar þú ert á blæðingum, og hentar einstaklega vel fyrir stelpur sem eru að byrja á túr eða eru nýbyrjaðar, taskan hjálpar þeim að hafa stjórn á ástandinu,“ segir Rakel Karlsdóttir, hönnuður en hún er að setja á laggirnar vörur sem aðstoða konur þegar Rósa frænka kemur óvænt í heimsókn.

Rakel ólst upp hér á Íslandi umkringd hestum og íslenskri náttúru. Árið 2000 var hún valin Ford­fyrirsætan og í kjölfarið flutti hún til London, Mílanó og Parísar þar sem hún starfaði sem fyrirsæta.

„Ég hef alltaf verið ævintýragjörn stelpa. Eftir að hafa ferðast mikið og unnið fyrir framan myndavélina, ákvað ég að flytja til Kaupmannahafnar og fara í nám. Ég tók byggingarfræðina, arkitektinn og hluta af hönnun. Eftir námið hef ég unnið sem arkitekt og hönnuður hjá Johannes Torpe Studios hér í Kaupmannahöfn. Síðustu mánuði hef ég verið að vinna að minni eigin hönnun LAVA,“ segir Rakel, en nú þegar hefur hún hannað þrjár vörur sem væntanlegar eru á markaðinn.

En hvernig kviknaði hugmyndin?

„Þetta byrjaði allt þegar ég var í hestaferðalagi heima á Íslandi. Hver þekkir ekki ástandið þegar þú þarft að skipta um bindi eða túrtappa og það er engin ruslatunna nálægt þér, ekki geturðu hent þessu út í náttúruna. Þegar ég lenti eitt sinn sjálf í þessum aðstæðum, kviknaði sú hugmynd að hanna lausn á þessu, í kjölfarið kom “The Period Bag” eða plastpokinn, en hann er hannaður sérstaklega fyrir þetta vandamál. Veskið kom strax á eftir pokanum, og það inniheldur allar þær vörur sem þú persónulega notar. Á töskunni er teygur sem þú auðveldlega getur bundið utanum lærin svo þú þurfir ekki að setja töskuna á skítugt gólf. Þegar hugmyndin var komin vel af stað ákvað ég að hanna “The WetWipes” sem eru blautþurrkur án ilmefna og alkóhóls, þær eru hugsaðar til notkunar ef þú ert ekki nálægt hreinu vatni,“ segir Rakel.

LAVA, er ekki einungis ætlað til framleiðslu á vörum, heldur vinnur Rakel að því að snúa við þeirri skömm sem konur bera með sér varðandi blæðingar. 

„Af hverju erum við að læðast á klósettið eins og enginn megi sjá okkur, eða pískra þegar við spyrjum vinkonur hvort þær séu með auka túrtappa á sér sem maður getur fengið lánað. Ég er alveg viss um að LAVA geti hjálpað stelpum með að komast yfir þessa feimni og aðstoða stelpur við að fá meira sjálfstraust þegar þær fara á túr. Svo er líka bara frábært ef þú hefur fulla stjórn á aðstæðum,“ segir Rakel.

LAVA mun fara á Kickstarter 1. September 2016, en það er síða á netinu sem hjálpar nýjum hönnuðum að komast af stað.

„Eftir Kickstarter, þá get ég sett fyrstu framleiðsluna í gang og þá fara hjólin að rúlla, planið er að vinna í fullu starfi í LAVA og byggja fyrirtækið upp, með það að markmiði að hjálpa stelpum og konum að byggja upp sjálfstraust,“ segir Rakel full tilhlökkunar yfir framhaldinu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×