Erlent

Forsætisráðherra Japan heimsótti Pearl Harbour

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Barack Obama og Shinzo Abe við minnismerkið um USS Arizona.
Barack Obama og Shinzo Abe við minnismerkið um USS Arizona.
Forsætisráðherra Japan,  Shinzo Abe heimsótti flotastöð Bandaríkjanna við Pearl Harbour auk minnisvarða um USS Arizona herskipið í dag ásamt Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Er þetta í fyrsta sinn sem leiðtogar beggja landa heimsækja flotastöðina. BBC greinir frá.

Japanir gerðu mannskæða árás á flotastöðina þann 7. desember árið 1941 og drógu Bandaríkin þar með inn í seinni heimsstyrjöldina. 2300 manns létust í árásinni.  

Abe lýsti yfir einlægri samúð með fórnarlömbum árásarinnar. „Við megum aldrei endurtaka þann hrylling sem stríð hefur í för með sér. Því hefur japanska þjóðin heitið“ sagði Abe sem tileinkaði sérstaklega fórnarlömbum um borð í Arizona herskipinu heitið.  

Herskipið var jafnan talið stolt bandaríska hersins áður en Japanir sökktu því í árásinni. Forsetarnir tveir lögðu blómsveiga við minnisvarða fórnarlambanna.

Bandalag þjóðanna aldrei verið sterkara

Abe hrósaði Bandaríkjunum fyrir það hvernig þeim hefði tekist að lagfæra samband sitt við Japani eftir stríð og sagði að bandalag þjóðanna tveggja væri „bandalag vonar.“

Obama tók undir með japanska forsætisráðherranum og sagði að bandalag þjóðanna tveggja hefði aldrei verið sterkara.

Leiðtogarnir tveir báðu fyrir fórnarlömbum árásarinnar, en eins og búist var við baðst Abe ekki afsökunar fyrir hönd Japana á árásinni.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×