Erlent

Konan sem kallaði Michelle Obama apa var rekin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Michelle Obama.
Michelle Obama. Vísir/Getty
Pamela Taylor, konan sem komst í heimsfréttirnar í síðasta mánuði fyrir að kalla forsetafrúna Michelle Obama „apa á hælum“ í Facebook færslu hefur verið rekin úr stöðu sinni. Reuters greinir frá.

Í færslu sinni sagði Taylor orðrétt: „Það verður hressandi að sjá siðfágaða, fallega og tignarlega forsetafrú í Hvíta húsinu. Ég er þreytt á að sjá apa á hælum.“

Sjá einnig: Michelle Obama kölluð "api á hælum"

Konan stýrði góðgerðarsamtökum fyrir aldraða í Clay County í Virginíu í Bandaríkjunum þegar hún ritaði færsluna en athygli vakti að bæjarstjóri bæjarins – Beverly Whaling tók undir með Taylor og sagði hana hafa „bjargað deginum sínum“ með færslunni.

Þúsundir rituðu nafn sitt á undirskriftalista og kröfðust þess að báðir einstaklingar yrðu sviptir stöðum sínum. Í kjölfar þess sagði bæjarstjórinn stöðu sinni lausri.

Yfirvöld í Vestur-Virgínuríki ákváðu að gera samtökum Taylor það ljóst að ekki yrði falast eftir þjónustu þeirra ef þau gætu ekki haldið uppi fordómalausri stefnu og þannig búið svo um hnútana að Taylor yrði ekki lengur stjórnandi samtakanna.

Því var Taylor látin fjúka og ljóst að hvorki hún né fyrrum bæjarstjórinn gegna enn stöðu sinni eftir ummælin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×