Enski boltinn

Liverpool aftur upp í 2. sætið eftir öruggan sigur | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool endurheimti 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið vann Stoke City 4-1 á Anfield í kvöld.

Þetta var þriðji sigur Liverpool í röð og gefur liðinu gott byr undir báða vængi fyrir stórleikinn gegn Manchester City á gamlársdag.

Stoke byrjaði leikinn í kvöld af krafti og á 12. mínútu kom Jonathan Walters gestunum yfir með skalla eftir fyrirgjöf Erik Pieters. Skömmu síðar fékk Joe Allen dauðafæri en Simon Mignolet varði vel með fætinum.

Adam Lallana jafnaði metin á 35. mínútu þegar hann nýtti sér mistök Glens Johnson og skoraði úr þröngu færi. Þetta var sjöunda mark hans í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Mínútu fyrir hálfleik kom Roberto Firmino Liverpool svo yfir þegar hann skaut í báðar stangirnar og inn. Firmino var tekinn ölvaður undir stýri á jóladag en virtist allsgáður í dag og spilaði vel.

Staðan var 2-1 í hálfleik og fram á 59. mínútu þegar Giannelli Imbula skoraði sjálfsmark. Ellefu mínútum síðar skoraði Daniel Sturridge fjórða mark Liverpool, skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Hann komst þá inn í slaka sendingu Ryans Shawcross til baka, lék á Lee Grant og renndi boltanum í autt markið.

Fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool fagnaði góðum sigri, 4-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×