Eftir að hafa landað sjálfum Íslandsmeistaratitlinum með Breiðabliki um nýliðna helgi, þeim þriðja á ferlinum, greindi Ásta Eir frá því í gær að skórnir væru komnir á hilluna. Ákvörðun sem á sér sinn aðdraganda en Ásta fór fyrst að íhuga möguleg endalok á ferlinum fyrir tímabilið.
„Ég er mjög sátt með þessa ákvörðun,“ segir Ásta Eir í viðtali við íþróttadeild Stöðvar 2. „Auðvitað fékk þetta handrit fullkomin endalok eins og ég hafði séð fyrir mér. Sem gerir þetta enn betra. Ég er mjög sátt í hjartanu eftir þetta allt saman.“
Ásta Eir hefur allan sinn feril á Íslandi spilað með uppeldisfélaginu og gengið í gegnum góða tíma en einnig krefjandi tíma þjakaða af erfiðum meiðslum. Leikirnir í efstu deild urðu alls 176 talsins og þá á Ásta 278 mótsleiki skráða fyrir Breiðablik.
Hún er aðeins 31 árs sem telst ekki hár aldur fyrir knattspyrnukonu og frá fyrsta leiknum í efstu deild árið 2009 hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Þrefaldur Íslandsmeistari. Þrefaldur bikarmeistari. Hluti af fyrsta íslenska liðinu sem fer í riðlakeppni í Evrópu. Þetta afrekarðu allt með uppeldisfélagi þínu. Þú hlýtur að líta stolt yfir farinn veg?
„Já. Vá þegar að þú segir þetta svona,“ svarar tárvot Ásta Eir er hún hugsar til tímans sem hún hefur varið sem leikmaður Breiðabliks. „Ótrúlega stolt. Stolt að hafa klárað þetta á yfirstandandi tímabili sem og að hafa upplifað þetta allt með Breiðabliki.
Breiðablik er mitt lið. Það hefur aldrei hvarflað að mér að spila fyrir annað lið á Íslandi. Ég er uppalin hér og hefur alltaf liðið vel hérna. Ég er ánægð og stolt af sjálfri mér fyrir að hafa alltaf haldið áfram.“
„Þegar að ég var yngri. Á þeim tíma sem ég var að hefja meistaraflokksferilinn. Þá var markmiðið aldrei að fara út í einhverja atvinnumennsku. Mér fannst bara fyrst og fremst ótrúlega gaman í fótbolta. Ég vildi bara vera í liði. Hafa gaman og berjast á æfingum. Auðvitað vil ég alltaf vinna en svo er bara einhver ákveðin seigla sem fer af stað.
Ég er líka þakklát fyrir alla þessa erfiðu tíma. Þeir móta mann þvílíkt mikið. Ég gæti ekki verið ánægðari og er mjög stolt af félaginu sem og sjálfri mér. Þakklát fyrir félagið og allt fólkið sem kemur að því. Mjög sátt.“
Viðtalið við Ástu Eir í heild sinni verður hægt að sjá hér á Vísi í fyrramálið.