Erlent

Þúsundir mættu í 15 ára afmælisveisluna vegna mistaka pabbans

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alls höfðu 1,2 milljónir boðað komu sína í veisluna.
Alls höfðu 1,2 milljónir boðað komu sína í veisluna. vísir/epa
Mörg þúsund manns mættu í afmælisveislu hinnar fimmtán ára Rubi Ibarra Garcia á dögunum vegna mistaka föður hennar sem birti myndskeið á netinu þar sem hann bauð í veislu dóttur sinnar í heimabæ þeirra í Mexíkó. Boðskortið, sem var ætlað vinum og ættingjum, var opið öllum og fyrr en varði höfðu mörg þúsund manns deilt myndbandinu á samfélagsmiðlum.

Faðir stúlkunnar, Crescencio Ibarra, sagði í myndskeiðinu að allir væru velkomnir í veisluna, en átti þá í raun við að allir þeirra ættingjar, vinir og nágrannar væru velkomnir. Alls höfðu 800 þúsund manns deilt boðskortinu á netinu fyrir veisluna og yfir 1,2 milljónir boðað komu sína í afmælið.

Boðskortið vakti svo mikla athygli að mexíkóska flugfélagið Interjet bauð þeim sem hugðust sækja veisluna þrjátíu prósent afslátt af flugferðinni.

Sjálfræðisaldur í Mexíkó er fimmtán ár og var því öllu til tjaldað í veislunni, en nokkrar hljómsveitir stigu á svið og þá voru haldnar kappreiðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Her ljósmyndara og fjölmiðlamanna var á svæðinu þegar fjölskyldan mætti til afmælisveislunnar, og svo margt var um manninn að lögregla og Rauði krossinn voru fengin til að fylgjast með.

Hér fyrir neðan má sjá myndband úr veislunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×