Erlent

Bob Dylan yfir sig hreykinn af Nóbelsverðlaununum

Anton Egilsson skrifar
Bob Dylan mætti ekki til að taka á móti bókmenntaverðlaunum Nóbels.
Bob Dylan mætti ekki til að taka á móti bókmenntaverðlaunum Nóbels. Vísir/GETTY
Afhending Nóbelsverðlauna þessa árs fór fram í tónleikahöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð í gær. Tónlistarmaðurinn Bob Dylan, handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels, var ekki á staðnum til að veita verðlaununum viðtöku en í ræðu sem að sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð las upp fyrir hans hönd sagðist hann yfir sig hreykinn af verðlaununum. BBC greinir frá. 

Í ræðunni sagðist Dylan varla trúa því að hann væri kominn í hóp handhafa bókmenntaverðlauna Nóbels. Hann hafi frá unga aldri lesið og sokkið sér í verk eftir fyrrum verðlaunahafa, svo sem Rudyard Kipling og Ernest Hemingway.

„Ef einhver hefði sagt við mig að ég ætti einhvern möguleika á því að fá Nóbelsverðlaun þá hefði ég sagt að líkurnar væru jafn miklar og að ég myndi standa á tunglinu“. Sagði í ræðu Dylan.   

Samkvæmt nóbelsnefndinni á Dylan ekki að hafa mætt á athöfnina þar sem „aðrar skuldbindingar“ komu í veg fyrir að hann kæmist. Nefndin sjálf sagðist virða ákvörðun Dylan, en tók fram að það væri óhefðbundið að verðlaunahafar tækju ekki á móti verðlaunum sínum í Stokkhólmi.

Söngkonan Patti Smith mætti á athöfnina og söng þar lag til heiðurs Dylan. Flutti hún lag hans, A Hard Rain's A-Gonna Fall en þurfti að hætta í miðju lagi þar sem hún gleymdi textanum. Aðdáendur studdu hana þó áfram til dáða og klöppuðu fyrir henni áður en hóf söng á ný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×