Innlent

„Hef áhyggjur af því að svona umfjöllun skaði skólasamfélagið“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Formaður Félags skólastjórnenda gagnrýnir umfjöllun um mataráskriftir grunnskólabarna.
Formaður Félags skólastjórnenda gagnrýnir umfjöllun um mataráskriftir grunnskólabarna. vísir/vilhelm
Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík, segir að málefni skólasamfélagsins eigi heima á borði skólayfirvalda, ekki í fjölmiðlum. Neikvæðar fréttir um einstaka skóla séu einungis til þess fallnar að skapa frekari vandamál.

„Mér finnst að ef fólk hefur áhyggjur af ferlum innan skólans þá eigi að koma þeim áleiðis til skólastjórnenda. Ef fólki finnst það ekki fá hlustun þá er hægt að koma því til skóla- og frístundasviðs sem rekur grunnskólana í borginni. Ég hef áhyggjur af því að svona umfjöllun skaði skólasamfélagið og vekur mjög neikvæða umræðu gagnvart viðkomandi skóla og skólastarfi,“ segir hún.

Guðlaug vísar þannig til frétta dagsins um mataráskriftir grunnskólabarna í borginni. Greint var frá því í dag að ellefu ára stúlka í Fellaskóla hefði ekki fengið að taka þátt í pítsuveislu í skólanum í tilefni öskudags annars vegar og hins vegar að börn í Árbæjarskóla sem ekki eru með svonefnda mataráskrift fái ekki að sitja inni í mötuneyti á matmálstíma.

„Mér finnst ekki eiga að reka svona mál í gegnum fjölmiðla og skapa titring og vantraust gagnvart viðkomandi skólum. Þetta er alvarlegt mál. Það eru einstaklingar sem þarna eiga í hlut og ég held að það sé verið að skapa meiri vandamál en verið að leysa. Þetta skapar neikvæða umræðu gagnvart skólanum og getur skapað leiðindi út í nemendahópinn. Nemendum finnst heldur ekki gaman þegar verið er að fjalla á neikvæðan hátt um skólann sinn,“ útskýrir Guðlaug.

„Þarna er verið að blása upp mál sem oft skaða skólasamfélögin og skilur eftir sár í skólaumhverfinu því oft eru þessi mál tekin úr samhengi og aðeins fjallað um afmarkað sjónarhorn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×