Viðskipti innlent

Titringur á mörkuðum teygir anga sína til Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhann Gísli Jóhannesson sjóðsstjóri hjá GAMMA.
Jóhann Gísli Jóhannesson sjóðsstjóri hjá GAMMA.
Íslenska úrvalsvísitalan OMXI8 hefur lækkað um 1,91 prósent það sem af er degi. Mest nemur lækkunin í Marel, um 3,17 prósent í 440 milljóna króna viðskiptum. Síminn og Icelandair Group hafa líka lækkað um 1,89 prósent. Eina félagið sem hefur hækkað er Hagar, um 0,55 prósent í 231 milljóna króna viðskiptum.

„Ég held að þetta sé nú fyrst og fremst út af mörkuðum úti,“ segir Jóhann Gísli Jóhannesson, sjóðsstjóri hlutabréfa- og fyrirtækjaskuldabréfa hjá Gamma. Hann telur að menn hafi áhyggjur af því að það er búið að vera allt niður úti um allan heim. Áhrifin hafi smitast frá Kína og yfir í Evrópu og Bandaríkin. „Menn halda aðeins að sér höndum og vilja sjá hvernig þetta þróast.“

Markaðir í Evrópu hafa fallið um 3 prósent það sem af er degi. Það er rakið til mikils gerningaveðurs á mörkuðu í Kína þar sem hlutabréf féllu um 7 prósent eftir 30 mínútna viðskipti. Mörkuðum var lokað og óttinn teygir nú anga sína bæði til Evrópu og Bandaríkjanna.

Jóhann Gísli bendir á að markaðurinn hér heima hafi hækkað fyrstu þrjá daga ársins á meðan markaðir erlendis hafi verið niður á við.

Áhrifin á skuldabréfamarkaðinn hér heima eru minni. Jóhann Gísli bendir á að það hafi verið einhver sala í verðtryggða hlutanum sem sé afleiðing af olíulækkun. „Það dregur úr verðbólguvæntingum. Olíuverð er að hríðfalla þessa vikuna,“ segir Jóhann Gísli. Hann bendir þó á að úti í heimi séu skuldabréf að hækka. „Menn eru að færa sig úr hlutabréfum og yfir í skuldabréf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×