Viðskipti innlent

Mikil hækkun launa og kaupmáttar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Launavísitala hækkaði um hálft prósent á milli apríl og maí en árshækkunin í maí var 13,3 prósent. Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans segir að um miklar breytingar sé að ræða og sérstaklega í ljósi þess að stöðugleiki ríki og verðbólga sé lítil. Kaupmáttur hefur einnig aukist verulega, eða um 11,4 prósent frá maí 2015.

„Launahækkanir vegna kjarasamninga hafa verið miklar og svo virðist vera eitthvert launaskrið í gangi þar sem launavísitalan hækkar nokkuð stöðugt frá mánuði til mánaðar.“

Þá segir að kaupmáttur launavísitölu sé nú hærri en hann hafi nokkurn tíma verið áður. Hann náði hámarki í ágúst 2007, en dróst svo saman aftur og náði ekki sama stigi fyrr en í nóvember 2014. Síðan þá hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um tólf prósent.

„Kaupmáttur hefur aukist nokkuð stöðugt frá því 2010, en aukningin frá því í ársbyrjun 2015 er sérstaklega hröð og sú langmesta frá aldamótum.“

Fram kemur í Hagsjánni að þrátt fyrir miklar launahækkanir hafi verðbólga haldist lág. Þar spili ytri skilyrði eins og lækkun hrávöruverðs og styrking krónunnar stórt hlutverk. Innlendir þættir skipta þó einnig máli. Svo virðist sem að atvinnurekendur hafi haft svigrúm til að hækka laun, án þess að velta hækkunum út í verðlagið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×