Innlent

Yfirlýsing frá Markúsi: Hef ávallt gætt að hæfi í málum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Markús Sigurbjörnsson ásamt forsetanum Guðna Th. Jóhanessyni.
Markús Sigurbjörnsson ásamt forsetanum Guðna Th. Jóhanessyni. Vísir/Eyþór
Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar og dómari við réttinn, segist alltaf hafa gætt að hæfi sínu í sérhverju máli sem hann dæmi í. Það hafi hann ávallt gert, þar á meðal í málum sem varðað hafi Glitni eða fyrrverandi starfsmenn bankans.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Markús sendi fjölmiðlum í dag.

Yfirlýsingin í heild

Vegna umfjöllunar um atriði varðandi fjármál mín í fjölmiðlum 5. desember 2016 vil ég taka eftirfarandi fram:

Í febrúar 2002 féll til mín arfur við andlát móður minnar, sem fólst meðal annars í helmings hlutdeild í hlutabréfum, sem foreldrar mínir höfðu átt í Hf. Eimskipafélagi Íslands, Flugleiðum hf. og Íslandsbanka hf., en hann fékk síðar heitið Glitnir banki hf. Markaðsverð þessarar hlutdeildar mun á þeim tíma hafa verið rétt innan við 23.000.000 krónur.

Vegna starfa minna sem dómari bar mér samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla að leita leyfis nefndar um dómarastörf til að mega eignast þessi hlutabréf, sbr. einnig reglur nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Með bréfi 18. febrúar 2002 leitaði ég leyfi nefndarinnar til að mega eiga hlut að einkaskiptum á dánarbúi móður minnar, sem ætti þessi hlutabréf, og til að eignast við þau skipti hlutdeild í þeim og var leyfið veitt tveimur dögum síðar. Ég tilkynnti síðan nefndinni með bréfi 11. desember 2003 að ég hefði selt hlutabréfin í Glitni banka hf. og Flugleiðum hf. og með bréfi 28. febrúar 2007 að ég hefði selt hlutabréfin í Glitni banka hf.

Eftir sölu þessara hlutabréf setti ég andvirði þeirra að stærstum hluta í svonefnda eignastýringu hjá Glitni banka hf., þar sem því var á grundvelli samnings um þá þjónustu meðal annars ráðstafað til að kaupa hlutdeildarskírteini í ýmsum verðbréfasjóðum, sem baninn bauð almenningi. Hvorki átti ég samkvæmt lögum nr. 15/1998 né reglum nr. 463/2000 að tilkynna nefnd um dómarastörf um kaup á slíkum hlutdeildarskírteinum, enda varð ég ekki með þeim eigandi að hlut í félagi. Það skal svo áréttað að lögum samkvæmt ber dómara að eigin frumkvæði að gæta að hæfi sínu í sérhverju máli, sem hann dæmir í. Það hef ég ávallt gert, þar á meðal í málum sem varðað hafa Glitni banka hf. eða fyrrverandi starfsmenn hans.


Tengdar fréttir

Markús telur sig ekki hafa verið vanhæfan

Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, átti í umfangsmilklum hlutabréfaviðskiptum á árunum fyrir hrun en hefur ekki vikið sæti í svokölluðum hrunnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×