Viðskipti innlent

Hægt að losa höft síðar á þessu ári ef útboð gengur vel

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ef aflandskrónuútboðið í næsta mánuði heppnast vel og ekkert óvænt gerist verði hægt að fara mjög langt við að losa gjaldeyrishöftin alveg á þessu ári.

Í næsta mánuði er fyrirhugað að halda svokallað aflandskrónuútboð sem er mjög mikilvægur liður í losun gjaldeyrishafta. Aflandskrónur eru verðmæti í íslenskum krónum í eigu eða vörslu útlendinga. Þetta geta verið verðbréf útgefin í krónum eða fjármunir á krónureikningum í bönkum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að sterkur pólitískur stuðningur við útboðið skipti máli.

„Aðalatriði er að á réttu augnablikinunum þegar þarf að breyta lögum til þess að gera útboðið mögulegt þá sé þingið starfandi og geti tekið slíkt mál til afgreiðslu. Síðan þarf að vera pólitískur stuðningur við verkefnið,“ segir Már. 

Í hefti um peningastefnuna sem Samtök atvinnulífsins gáfu út á fimmtudag segir að stærstu óvissuþáttunum um gengi íslensku krónunnar hafi nú verið rutt úr vegi. Full ástæða sé til að láta reyna á markaðsgengi krónunnar og losa um höft á alla innlenda aðila. Már segir að ef aflandskrónuútboðið heppnist vel sé hægt að huga að losun hafta.

„Ef ekkert óvænt gerist er hægt að fara mjög langt við losa þessi höft meira og minna alveg síðar á þessu ári eða mjög snemma á því næsta.“

Úrlausn á málefnum slitabú föllnu bankanna heppnaðist mjög vel enda er búið að ljúka nauðasamningum hjá þeim öllum og allt að 500 milljarðar króna skila sér í ríkissjóð í formi stöðugleikaframlaga. Lee Buchheit sagði að þessi niðurstaða væri „einstök í fjármálasögu heimsins.“ Seðlabankastjóri segir að sterkur pólitískur stuðningur í því verkefni hafi skipt sköpum.

„Það skipti mjög miklu máli að það var breiður stuðningur, langt út fyrir ríkisstjórnina, í reynd í öllu þinginu við málið. Það er auðvitað lang best,“ segir Már Guðmundsson. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×