Viðskipti innlent

Hagnaður olíurisa dregst verulega saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Forsvarsmenn BP kenna lækkandi olíuverði um afkomuna.
Forsvarsmenn BP kenna lækkandi olíuverði um afkomuna. Mynd/BP
Olíurisinn BP hagnaðist um 933 milljónir dollara, jafnvirði 105 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Hagnaðurinn dróst verulega saman milli ára en hann nam 1,8 milljörðum dollara, jafnvirði 202 milljarða íslenskra króna, á sama tímabili í fyrra.

Forsvarsmenn BP kenna lækkandi hrávöruverði á olíu um lélegri afkomu. BBC greinir frá því að forsvarsmenn keppinautarins Royal Dutch Shell hafi einnig varað við slæmri afkomu sökum lækkandi olíuverðs. Hagnaður Shell jókst hins vegar um 18 prósent milli ára. Hagnaðurinn nam 2,8 milljörðum dollara, jafnvirði 314 milljarða króna, sem var ofar spám greiningaraðila.

Fjármálastjóri BP segir að verið sé að ná góðum árangri í að aðlaga rekstur BP að nýju rekstrarumhverfi með erfiðu verði. Hann segir góða trú á að ná rekstrinum á réttan stað á næsta ári miðað við að hrávöruverð á olíu verði á bilinu 50 til 55 dollarar. Á sama tíma sé BP að fjárfesta í verkefnum, fyrirtækjum og öðrum möguleikum til að auka hagnað á komandi árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×