Viðskipti innlent

Kraftlyftingakona sem skíðar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir hefur starfað hjá Icelandair frá árinu 2004.
Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir hefur starfað hjá Icelandair frá árinu 2004. Vísir/GVA
„Starfið leggst rosalega vel í mig, það er mikil samkeppni á markaðnum en tækifærin á sama tíma mörg og spennandi. Við leggjum okkur fram við að veita framúrskarandi þjónustu og erum með þráðlaust net í öllum okkar vélum, Vildarpunktasöfnun, afþreyingarkerfi fyrir alla fjölskylduna og glæsilegt úrval áfangastaða, en á næsta ári bætast við tvær stórborgir sem henta Íslendingum afar vel, þær Tampa og Philadelphia.“ Þetta segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir sem tók í gær við stöðu svæðisstjóra fyrir Icelandair á Íslandi.

„Við skiptum markaðnum upp í fimm svæði, Norður-Ameríku, Vestur-Evrópu, Skandinavíu, Ísland auk GSA-svæða fyrir Suður- og Austur-Evrópu, Asíu, Mið-Austurlönd, Afríku og Suður-Ameríku. Þetta er ábyrgð og rekstur á sölusvæðinu, innleiðing og eftirfylgni á sölustefnu, markaðs- og fjármálaáætlanir og svo framvegis.“

Tólf ár hjá Icelandair

Ingibjörg Ásdís lauk B.Sc.-prófi í viðskiptafræði og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað í tólf ár hjá Icelandair, nánast allan feril sinn. Áður starfaði hún hjá Air Atlanta og hjá Vodafone. „Maður bara elskar fyrirtækið og ég hef alltaf verið með flugbakteríuna. Ég vann sem flugfreyja á sumrin samhliða námi og eftir að ég lauk prófi í viðskiptafræði fór ég að vinna sem verkefnastjóri vef- og markaðsmála árið 2005,“ segir Ingibjörg. Frá 2007 til 2010 sá hún um samninga og samskipti við fjármálastofnanir og banka fyrir hönd Icelandair Saga Club, og hefur starfað sem forstöðumaður yfir Customer Loyalty síðan 2010.

Íslendingar með flugbakteríu

„Það er nóg að gera í vinnunni, þetta er fjölbreytt starf sem tekur á svo mörgu. Íslendingar elska líka að ferðast, þannig að þessi flugbaktería er rótgróin í okkur. Það sýnir sig líka í því þegar við erum að auglýsa eftir starfsmönnum hversu margir sækja um, það vilja svo margir vinna við flugið,“ segir Ingibjörg Ásdís.

Kraftlyfting og hot yoga góð blanda

Ingibjörg Ásdís er í sambandi með Ragnari Ágústssyni og á hún tvö börn og hann tvö börn sem eiga hug þeirra allan. Utan vinnunnar eyðir hún tíma með fjölskyldunni og sinnir líkamsrækt. „Helst núna á dagskrá eru kraftlyftingar, ég er að æfa hjá honum Ingimundi úti á Nesi og hef verið þar í eitt ár. Ég var að lyfta fyrir mörgum árum síðan og langaði alltaf að byrja aftur. Þetta er að mínu mati frábær hreyfing og gott að komast þangað til að fá útrás. Blanda þessu saman við hot yoga sem er mjög góð blanda, sérstaklega í kuldanum.“

Ingibjörg Ásdís stefnir líka á að skíða í vetur. „Við ætlum bæði á skíði innanlands og utan, það er verið að stefna á Akureyri og Denver­ í Colorado með skíðin í vetur. Við veljum að sjálfsögðu þá áfangastaði sem Icelandair flýgur til,“ segir hún kímin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×