Fótbolti

Dóra María: Sé ekkert eftir þessari ákvörðun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dóra María Lárusdóttir var, eins og alltaf, í byrjunarliði landsliðsins þegar það valtaði yfir Serbíu, 9-1, í lokaleik liðsins í undankeppni HM 2015 17. september 2014. Dóra spilaði þar sinn 108. landsleik en hún er ein af sex konum í 100 leikja klúbbnum.

Hún tók sér frí frá fótbolta í eitt ár en sneri aftur í Valsliðið fyrir yfirstandandi tímabil og hefur spilað vel. Nú er hún komin aftur í landsliðið og gæti spilað sinn fyrsta leik í næstum slétt tvö ár.

„Ef ég á að segja alveg eins og er sá ég það ekki alveg fyrir. Það er bara ótrúlega gaman samt að vera komin aftur og ég er ótrúlega þakklát fyrir traustið,“ segir Dóra María í viðtali við Vísi.

„Ég var komin með smá leiða þarna haustið í lok árs 2014. Ég sagðist aldrei vera hætt því ég vildi eiga þennan möguleika inn í erminni. Mig langaði að prófa eitthvað annað en það er ótrúlega gaman að vera komin aftur og ég sé ekkert eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun.“

Dóra María Lárusdóttir er í lykilhlutverki í liði Vals.vísir/hanna
Annað hlutverk

Hin 31 árs gamla Dóra María var í byrjunarliðinu í öllum leikjum Íslands á EM 2009 í Finnlandi og í Svíþjóð 2013. Að spila á þriðja Evrópumótinu kitlaði Valskonuna.

„Mér hefur þótt spilamennska mín þannig að mér fannst ég gera tilkall til að vera þátttakandi í þessu. Ég hef alltaf sagt að ég gef kost á mér í landsliðið. Næsta ár er mjög spennandi þannig þetta var markmiðið leynt og ljóst,“ segir Dóra María.

Dóra áttar sig þó á því að fjarvera hennar hefur gefið öðrum leikmönnum tækifæri á að sanna sig og nú verður hún í öðru hlutverki en byrjunarliðsmaður, allavega til að byrja með.

„Ég hugsa að maður verði í öðruvísi hlutverki núna en það verður líka verkefni fyrir mig að vinna mig betur inn í liðið. Ég fagna hverri mínútu sem ég fæ ef ég þá fæ mínútur. Það kemur bara í ljós hvernig þetta spilast,“ segir Dóra María Lárusdóttir.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×