Viðskipti erlent

iPhone 7 selst eins og heitar lummur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nýr iPhone var kynntur þann 7. september og fer í alþjóðlega sölu 16. september.
Nýr iPhone var kynntur þann 7. september og fer í alþjóðlega sölu 16. september. Vísir/Getty
Samkvæmt tölum úr forsölu T-Mobile og Sprint í  Bandaríkjunum virðist gríðarleg eftirspurn eftir nýjum snjallsíma Apple, iPhone 7, sem kynntur var þann 7. september síðastliðinn.

CNN greinir frá því að pantanir í forsölu hjá fyrirtækjunum eru fjórum sinnum fleiri en þegar iPhone 6 var kynntur fyrir tveimur árum. Forsalan sem hófst á föstudaginn var sú stærsta í sögu T-Mobile. Hjá Sprint er forsalan 375 prósent meiri á fyrstu þremur dögum en á sama tímabili í fyrra. Hjá fyrirtækjunum býðst notendum að skipta út gömlum síma fyrir þann nýja.

Mikill áhugi er á nýju svörtu litunum á símanum, matte black og jet black, og verður slíkum símum ekki skilað til sumra viðskiptavina fyrr en í nóvember.

Eins og Vísir greindi frá voru iPhone 7 og iPhone 7 Plus kynntir í síðustu viku og er stærsta breytingin að ekki verður lengur innstunga fyrir heyrnatól og verður síminn því vatnsheldari og rykheldari.

Síminn mun kosta 649 dollara í Bandaríkjunum eða 74 þúsund krónur. Sala hefst á símanum á föstudaginn í Bandaríkjunum en reikna má með að síminn komi til Íslands þann 23. september.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×