Enski boltinn

Ferguson: Klopp klikkaði í úrslitaleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp huggar James Milner eftir tapið í Basel.
Jürgen Klopp huggar James Milner eftir tapið í Basel. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Jürgen Klopp, kollegi hans hjá Liverpool, sé um að kenna fyrir tap Liverpool í úrslitaleik Evrópudeildarinnar síðasta vor.

Liverpool var 1-0 yfir í hálfleik gegn spænska liðinu Sevilla sem skoraði svo þrjú mörk í seinni hálfleik og lyfti Evrópudeildarbikarnum þriðja árið í röð. Þrátt fyrir mistök Klopps finnst Ferguson að Þjóðverjinn sé á hárréttum stað.

Ferguson fór yfir leikinn í skýrslu fyrir tækninefnd evrópska knattspyrnusambandsins en hann er yfir þeim hópi hjá UEFA. Skotinn segir að þráfylgni Klopp í pressu á boltann hafi á endanum kostað liðið titilinn.

„Sevilla hafði ekki gaman að tæklingum Liverpool í fyrri hálfleik og vilja liðsins. En Sevilla kom með betra hugarfar inn í seinni hálfleikinn og skoraði strax sem breytti leiknum,“ segir Ferguson, en Sky Sports greinir frá.

„Liverpool var orkulaust í seinni hálfleik og komst ekki að boltanum. Plássið sem skapaðist á miðjunni varð alltaf stærra. Aldrei stýrði ég liði sem gat pressað á boltann allt tímabilið.“

Ferguson er aftur á móti á þeirri skoðun að Klopp sé rétti maðurinn fyrir Liverpool en hann á bara eftir að gera Anfield að enn þá erfiðari stað að spila á þar sem hann smitar svo miklum krafti í annars frábæra stuðningsmenn liðsins.

„Mér fannst alltaf erfitt að spila á Anfield því stuðningsmennirnir búa til svo frábæra stemningu sem hefur áhrif á móhtjerna og setur dómarana undir pressu,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×