Enski boltinn

Samerji Jóa Berg grætur það að hafa ekki komist til United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Defour í leik gegn Hull.
Steven Defour í leik gegn Hull. vísir/getty
Steven Defour, samherji Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni, segir í viðtali við Sky Sports frá því hversu svekktur hann var að fá ekki tækifæri með Manchester United vegna meiðsla.

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, var að skoða Defour þegar hann fótbrotnaði mjög illa árið 2009. Skotinn sendi belgíska miðjumanninum bréf þar sem hann óskaði honum skjóts bata og sagðist halda áfram að fylgjast með honum.

Þrátt fyrir þráláta orðróma á þeim tíma um vistaskipti Defour frá Standard Liege til United varð ekkert af því að Belginn spilaði fyrir United en hann viðurkennir að meiðslin og að þetta tækifæri rann honum úr greipum hafi verið honum erfitt.

„Áður en ég meiddist var séns á að ég færi til United því ég vissi að það var að fylgjast með mér. En síðan meiddist ég þannig þetta var mjög erfitt,“ segir Defour.

„Ég átti erfitt með að finna mitt gamla form eftir meiðslin og vera í standi til að spila fyrir lið eins og Manchester United.“

Defour fór frá Standard til Porto og þaðan til Anderlecht en hann var í belgíska landsliðshópnum á EM í sumar. Hann gekk í raðir Burnley í ágúst en nýliðarnir borguðu metfé hjá félaginu fyrir hann eða átta milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×