Fótbolti

Ummæli Solo voru kornið sem fyllti mælinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óvíst er hvort Solo spilar fleiri landsleiki.
Óvíst er hvort Solo spilar fleiri landsleiki. vísir/getty
Ummæli Hope Solo eftir leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í Ríó voru ekki eina ástæða þess að hún var dæmd í hálfs árs bann og samningi hennar við bandaríska knattspyrnusambandið rift. Ummælin voru hins vegar kornið sem fyllti mælinn. Þetta segir Jill Ellis, þjálfari bandaríska landsliðsins.

Eftir að Bandaríkin töpuðu fyrir Svíþjóð í vítaspyrnukeppni á Ólympíuleikunum gagnrýndi Solo leikstíl sænska liðsins og sagði það vera samansafn af skræfum.

Sjá einnig: Svona brást Solo við fregnunum um bannið | Myndband

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Solo kemur sér í fréttirnar vegna atvika utan vallar. Og nú var einfaldlega nóg komið segir Ellis.

„Í gegnum tíðina hafa komið upp atvik sem bandaríska knattspyrnusambandið hefur tæklað. Alltaf sagði hún að þetta yrði í síðasta skipti sem eitthvað svona kæmi upp,“ sagði Ellis í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér.

„Því miður neyddu ummæli hennar eftir leikinn á Ólympíuleikunum okkur til að bregðast við. Þetta snýst ekki bara um þessi ummæli heldur endurtekin atvik sem hafa varpað neikvæðu ljósi á landsliðið.“

Hin 35 ára gamla Solo hefur verið einn fremsti markvörður heims um langt árabil. Hún hefur leikið 202 landsleiki fyrir Bandaríkin en óvíst er hvort þeir verða fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×