Innlent

Ákærð fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot: Innflutningur á amfetamíni og fíkniefnaframleiðsla á Seltjarnarnesi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fimm menn eru ákærðir fyrir fíkniefnaframleiðslu í iðnaðarhúsnæði við Bygggarða á Seltjarnaresi.
Fimm menn eru ákærðir fyrir fíkniefnaframleiðslu í iðnaðarhúsnæði við Bygggarða á Seltjarnaresi. mynd/loftmyndir.is
Héraðssaksóknari hefur ákært tíu manns fyrir stórfelld fíkniefnabrot haustið 2014. Fólkið er á þrítugs-og fertugsaldri en í janúar í fyrra var Sigurjón Árni Jensson, sem var 21 árs þegar brotin áttu sér stað, dæmdur í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi í Svíþjóð fyrir fíknefnasmygl.

Sigurjón var handtekinn þar í landi í október 2014 með fjögur kíló af amfetamíni sem héraðssaksóknari að telur að hafi átt að flytja hingað til lands. Vegna dómsins sem Sigurjón hlaut í Svíþjóð var ákæra á hendur honum hér heima felld niður.

Sex manns, fimm karlar og ein kona, eru ákærð fyrir að hafa skipulagt, fjármagnað og reynt að smygla tæplega fjórum kílóum af amfetamíni hingað til lands. Einn mannanna, sem var eftirlýstur af Interpol í fyrra vegna gruns um að hann tengdist málinu, er ákærður fyrir skipulagninguna ásamt þremur öðrum.

Þeir eiga síðan að hafa fengið Sigurjón Árna til þess að fara út til Amsterdam, sækja efnin og afhenda þau í Stokkhólmi konunni sem einnig er ákærð í málinu. Þá er einn maður ákærður fyrir að hafa farið með konunni út til að ljá ferðalagi hennar trúverðugra yfirbragð en samkvæmt ákæru vissi hann að konan myndi fá fíkniefni afhent í Svíþjóð sem hún ætti að flytja til Íslands.

Einn af þeim sem ákærðir eru fyrir skipulagninuna er svo einnig ákærður ásamt fjórum öðrum mönnum fyrir fíkniefnaframleiðslu í iðnaðarhúsnæði að Bygggörðum á Seltjarnarnesi. Í ákæru er rakið að mennirnir hafi sett upp eða látið setja upp rækturnarstöðu fyrir kannabisplöntur. Skáru þeir svo plönturnar eða létu skera þær niður þannig að úr urðu um 13 kíló af maríjúana, að því er segir í ákæru. Þá eru þeir einnig ákærðir fyrir að rækta 152 kannabisplöntur í húsnæðinu.

Málið gegn tímenningunum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn í liðinni viku. Flest neituðu þau sök, einhver játuðu brot sín að hluta og aðrir tóku sér frest til að taka afstöðu til ákæruefnanna.


Tengdar fréttir

Interpol lýsir eftir Íslendingi

Alþjóðalögreglan Interpol lýsir á heimasíðu sinni eftir Gunnari Þór Grétarssyni, 34 ára Íslendingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×