Innlent

Rjúpnaskyttur gripnar glóðvolgar með margt á samviskunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rjúpnaveiðihelgin er hafin en veiðimenn eru hvattir til að kynna sér vel veðurspá áður en haldið er til fjalla.
Rjúpnaveiðihelgin er hafin en veiðimenn eru hvattir til að kynna sér vel veðurspá áður en haldið er til fjalla. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á Vesturlandi stöðvaði för tveggja manna á Snæfellsnesi í gær og gerðu upptækar rjúpur sem þeir höfðu veitt. Mennirnir höfðu gerst sekir um að aka utan vegar, veiða í þjóðgarðinum auk þess sem ekki er leyfilegt að veiða rjúpur nema tólf daga á ári, fjórar helgar frá föstudegi til sunnudags.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi náði vegfarandi mynd af mönnunum á jeppa sínum í utanverðum þjóðgarðinum í gær. Viðkomandi kom myndunum til lögreglu sem mætti á svæðið og stöðvaði mennina á Snæfellsnesvegi.

Vaknaði fljótlega grunur um að mennirnir tveir hefðu verið á rjúpnaveiðum í þjóðgarðinum þar sem meðferð skotvopna er stranglega bönnuð. Fyrir utan þá staðreynd að rjúpnaveiðihelgin hófst ekki fyrr en í dag.

Mennirnir viðurkenndu að hafa verið á ólöglegum skotveiðum og hafa ekið utan vega. Eiga þeir von á sekt vegna þessa. Þó svíður eflaust sárast að þrettán rjúpur sem mennirnir höfðu skotið í þjóðgarðinum voru gerðar upptækar.


Tengdar fréttir

Helgarspáin vond fyrir rjúpnaskyttur

Þriðja helgin þar sem má ganga til rjúpna er framundan og það verður að segjast eins og er að ekki lítur hún vel út.

Rjúpan er fyrir austan

Ólafur K Nielsen fuglafræðingur segir að þegar auð jörð sé hópist rjúpan saman sem getur gefið villandi mynd. Rjúpustofninn er í lágmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×