Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina.
Tilkynnt var um líkamsárás á veitingastað í póstnúmeri 108. Ekki eru frekari upplýsingar um árásina í dagbókinni aðrar en að hún sé í rannsókn. Þá var tilkynnt um yfirstaðið innbrot á veitingastað í sama hverfi en það er einnig í rannsókn.
Þá var tilkynnt um slys á veitingastað í miðborginni en það reyndist minniháttar.
Lögreglumenn handtóku farþega leigubíls sem hafði í hótunum við leigubílstjóra og neitaði að borga fyrir farið. Sá var handtekinn en látinn laus að loknum skýrslutökum.
Í póstnúmeri 113, sem nær yfir Grafarholt og Úlfarsárdal var tilkynnt um hópslagsmál. Þau reyndust minniháttar, að sögn lögreglu. Áflogaseggirnir héldu allir leiðar sinnar eftir að lögregluþjónar ræddu við þá.