Innlent

Kvörtun til ráðherra afgreidd án áminningar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri
Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri
Samskipti Haraldar Benediktssonar alþingismanns og Guðmundar Árnasonar, ráðuneytisstjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, munu ekki hafa nein eftirmál. Haraldur kvartaði til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir að Guðmundur hringdi í hann til að ræða efni skýrslu sem þingmennirnir Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson kynntu fjölmiðlum í september og þau kölluðu „Einkavæðing bankanna hin síðari“. Taldi Haraldur að í samtalinu hefði Guðmundur hótað sér æru- og eignamissi.

„Það kom svarbréf,“ segir Haraldur um niðurstöðu málsins og bætir við að efnislega sé niðurstaðan sú að málið sé úr sögunni. „Ráðherra fékk aðstoð hjá ríkislögmanni við að meðhöndla erindið og það endaði með þeim hætti að kvörtun mín var tekin fyrir og það var ekki veitt áminning eða neitt slíkt,“ segir hann. Guðmundur Árnason viðurkenndi í yfirlýsingu til fjölmiðla að í samtali sínu við Harald hefði hann tjáð Haraldi þá skoðun sína að í skýrslunni væru rætnar og alvarlegar ásakanir á hendur þeim sem komu að samningum milli gömlu og nýju bankanna af hálfu ríkisins.

Guðmundur segist hafa viljað ganga úr skugga um að Haraldur áttaði sig á alvarleika slíkra ásakana og að umræddir starfsmenn áskildu sér rétt til að láta reyna á persónulega ábyrgð þeirra sem slíku héldu fram fyrir dómstólum, enda æra þeirra og starfsheiður í veði. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×