Erlent

Lengsta hungurverkfalli heims lokið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sharmila með hungangið í lófa sér er hún batt endi á hungurverkfallið.
Sharmila með hungangið í lófa sér er hún batt endi á hungurverkfallið. Vísir/Getty
Irom Sharmila batt í dag enda á sextán ára hungurverkfall þegar hún borðaði hunang úr lófa sér í Manipur héraði á Indlandi. Sharmila, sem einnig er þekkt sem „járnfrúin í Manipur“ brosti og grét áður en hún batt enda á hungurverkfallið. „Ég mun aldrei gleyma þessu augnabliki,“ sagði Sharmila á þessum tímamótum.

Hún hóf hungurverkfallið árið 2000 í kjölfar þess að tíu almennir borgarar voru myrtir af indverskum hermönnum í Manipur. Hún vildi með því mótmæla frumvarpi sem gæfi hernum völd til að gera húsleitir og handtaka fólk án heimildar, og jafnvel skjóta af færi.

Sharmila hyggst bjóða sig fram á vettvangi stjórnmála og reyna þannig að hafa áhrif á samfélagið. Hún hefur undanfarið verið haldi á sjúkrahúsi en hún hefur verið handtekin fjórtán sinnum, grunuð um að reyna að stytta eigið líf. Ólöglegt er á Indlandi að reyna að taka sitt eigið líf, og hefur hún þess vegna  fengið næringu í gegnum slöngu í nefi í rúman áratug. Þetta kemur fram á vef CNN.

Með ákvörðun sinni um að binda endi á hungurverkfallið öðlast Sharmila frelsi sitt á ný. Hún hyggst ekki snúa heim strax en ætlar þess í stað að setjast að í hindúa klaustri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×