Innlent

Stúlkurnar greina báðar frá grófu ofbeldi af hendi meints nauðgara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fyrra tilfellið barst á borð lögreglunnar á Suðurnesjum þann 25. júlí en hið síðara á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 31. júlí.
Fyrra tilfellið barst á borð lögreglunnar á Suðurnesjum þann 25. júlí en hið síðara á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 31. júlí. Vísir/Getty
Ungur maður sem grunaður er um að hafa nauðgað tveimur stúlkum á táningsaldri með nokkurra daga millibili í lok júlí mun sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 19. ágúst á grundvelli almannahagsmuna. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þess efnis í dag en farið hafði verið fram á gæsluvarðhald til föstudagsins 2. september. Í ljósi þess að hinn grunaði hefur fallist á að gangast undir geðrannsókn þótti héraðsdómi rétt að hafa gæsluvarðhaldið tveimur vikum styttra.

Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum eftir fyrra brotið en þegar hið síðara kom upp, og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áttaði sig á því að kollegar þeirra á Suðurnesjum væru að rannsaka aðra meinta nauðgun nokkrum dögum fyrr, var ákveðið að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum. Hann mun ekki telja sig ganga heilan til skógar og hótaði að svipta sig lífi þegar lögregla kom að honum eftir meint síðara brot.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu koma fram nokkuð ítarlegar lýsingar á kynferðisbrotunum sem maðurinn er grunaður um. Fram hefur komið í umfjöllun Fréttatímans um málið að maðurinn sé 19 ára en stúlkurnar báðar fimmtán ára.

Atvikalýsingar í gæsluvarðhaldskröfunni eru á köflum grófar og ástæða til að vara fólk við því áður en lestri er framhaldið.


Lýsti kyrkingu og stöppun á hálsi

Hin fyrri meinta nauðgun á að hafa átt sér stað þann 25. júlí en lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um að ung stúlka hefði leitað á Neyðarmóttöku þann sama dag. Í skýrslutöku hjá lögreglu lýsti hún því að sakborningur hefði nauðgað henni tvisvar á heimili hans. Hafi hann byrjað að kyrkja hana og er hún náði að hreyfa sig og datt í gólfið hafi hann byrjað að stappa á hálsi hennar eins og hann væri að reyna að hálsbrjóta hana.

„Hafi hann sparkað í hana er hún lá á gólfinu. Hún hafi beðið hann um að hætta og sagst ætla að gera það sem hann vildi. Hafi hann sagt að ef hún gerði það ekki myndi hann láta hana hverfa. Í kjölfarið hafi hann beðið hana um að fara úr fötunum, sem hún gerði, og síðan hafi hann haft samfarir við hana. Hann hafi síðan sagt henni að fara í sturtu og eftir það þá hafi hann aftur haft samfarir við hana. Hafi hún verið á blæðingum umrætt sinn. Meðan á kynmökum stóð hafi hann einnig slegið hana utan undir. Eftir þetta hafi hann hent laki og smokk í svartan ruslapoka og síðan skutlaði hann henni heim.,“ segir í greinargerð lögreglu.

Hann hafi sagt henni að segja engum frá, það myndi ekkert þýða fyrir hana að kæra. Hún hafi farið heim til vinkonu sinnar, sem var ekki heima. Þar voru þó foreldrar vinkonunnar sem hlýddu á frásögn stúlkunnar og í kjölfarið fór hún á Neyðarmóttökuna.

Rúmföt fundust í rusli

Ljósmyndir voru teknar af af stúlkunni bæði 25. júlí og svo aftur 29. júlí þar sem má sjá áverka, að sögn lögreglu, sem samrýmast lýsingu hennar. Við húsleit á heimili mannsins hafi fundist svartur ruslapoki í ruslatunnu. Í honum voru rúmföt, handklæði, smokkar og ýmsir smámunir. Smokkurinn var notaður og virtist blóðugur.



Í skýrslu lögreglu kemur fram að við húsleit hafi sést að engin rúmföt voru utan um sæng, kodda og dýnu á rúmi sakbornings. Á vettvangi hafi sakborningur gefið þær skýringar að hann hafi brennt rúmfötin. Fyrst bar hann að vinur hans hafi aðstoðað hann en þeirri frásögn breytti hann síðar. Lögregla fann engin ummerki um bruna á rúmfötum

Maðurinn sagði í sömu yfirheyrslu hjá lögreglu að hann kannaðist við að stúlkan hefði komið heim til hans en neitaði því að kynmök hefðu átt sér stað. Hafi þau verið um hálftíma heima hjá honum en hann svo skutlað henni heim.  Í yfirheyrslunni var hann spurður hvort hann væri skapmikill og hafi hann þá sagst vera með ofsareiði. Sé honum hótað eða fjölskyldunni þá geti hann misst allt vit, líkaminn taki við, geðklofinn taki við og síðan muni hann ekki hvað gerist. Síðar í skýrslutökunni lýsi hann því að vel geti verið að hann hafi haft samræði við brotaþola, hann muni það ekki.

Af framburði hans mátti skilja að hann væri að bera fyrir sig geðrænum veikindum. Þá kom fram að hann ætti pantaðan tíma á göngudeild geðdeildar þann 9. eða 10. ágúst. 

Hljóp allsnakin úr herberginu

Sex dögum síðar eða sunnudaginn 31. júlí, um Verslunarmannahelgina, barst lögreglu tilkynning frá Neyðarlínunni um að stúlku hefði hugsanlega verið nauðgað. Samkvæmt heimildum Fréttatímans var útkallið að heimili í Grafarvogi í Reykjavík. Stuttu síðar barst annað símtal þar sem fram kom að kærði hótaði að drekkja sér vegna þess að hann ætti yfir höfði sér ákæru fyrir nauðgun.

Lögreglumenn mættu á vettvang og var stúlkan í miklu uppnámi og hafði grátið mikið. Hún tjáði lögreglu að kærði, sem hún þekkti ekki mikið, hefði nauðgað sér skömmu áður. Hann hefði lamið hana, hent henni í vegg, neytt hana til munnmaka og nauðgað henni. Hún hafi öskrað á hjálp og á einum tímapunkti hafi aðrir gestir í samkvæminu lamið á hurðina en kærði haldið fyrir munn hennar og sagt að allt væri í lagi. Þá hefði hann einnig reynt að kyrkja hana.

Stúlkan hafi svo losnað frá kærða, komist út og hlaupið allsnakin yfir í húsið þar sem allt fólkið var. Hún hafi verið með sjáanlega áverka í andliti, sprungna efri og neðri vör auk þess sem hún hafi verið aum í öllum líkamanum. Hún hafi verið flutt á brott í sjúkrabifreið.

Lögreglumenn hafi svo séð kærða í flæðarmálinu, hann hafi verið í mjög annarlegu ástandi og talað um að hann væri of vondur fyrir þennan heim. Kærði hafi talað um að hann þyrfti að hitta geðlækninn sinn vegna þess að hann væri hættulegur, hann vildi taka líf sitt og vildi ekki lifa lengur í þessum heimi.

Heyrðu öskur

Stúlkan segir þau hafa þekkst í um ár og mælt sér mót, hann hafi ætlað með hana í partý á einn stað en þau svo farið á annan stað. Þau hafi farið inn í herbergi á þeim forsendum að hann vildi tala við hana. 

Hann hafi hins vegar þvert á vilja hennar og þrátt fyrir mótmæli klætt hana úr fötunum, tekið hálstaki og hótað að hálsbrjóta hana ef hún öskraði. Hann hafi svo þvingað hana til munnmaka og nauðgað henni.




„Kærði hafi einnig haldið henni niðri á gólfinu og haldið fyrir vit hennar þannig að hún hafi ekki náð að anda. Hún hafi síðan náð að losa sig og hlaupa allsnakin út úr herberginu rakleiðis inn í stofu í húsinu þar sem allir hafi verið,“ segir í greinargerðinni.



Ferskir áverkar 

Móðir stúlkunnar segir hana hafa verið áverkalausa þegar hún kvaddi hana sama dag, fyrir samkvæmið.

Í gögnum Neyðarmóttöku kemur fram að hún hafi verið með áverka á höfði og líkama, rispur framan á bringu sem taldar eru geta verið eftir klór, sár á vinstri öxl, hálsi og kinn sem séu talin geta verið eftir handtak á hálsi, hún hafi verið stokkbólgin á vörum og með húðblæðingar innan á efri og neðri vör sem taldar séu samrýmast meintum brotum kærða á stúlkunni.

Þá hafi hún verið með rispur og marbletti á hálsi bak við vinstra eyra, framan á öxlum beggja vegna og neðst við hársvörð aftan á hálsi sem gætu verið eftir handtak. Ljósmyndir af áverkum brotaþola, sem teknar hafi verið á Neyðarmóttöku, sýni glöggt að um ferska áverka sé að ræða.

Kærði neitaði sök í skýrslutöku, sagði þau hafa haft samfarir með hennar leyfi. Hann neitaði að hafa beitt ofbeldi. Hann hafi talið áverkana vera vegna þess að stúlkunni hefði verið nauðgað nokkrum dögum fyrr. Hann gat ekki útskýrt það nánar. 

Vitnisburður fólks í samkvæminu er svo til á sama veg. Hinn grunaði og brotaþoli hafi mætt saman í samkvæmið og húsráðandi segist hafa afhent kærða lykil að útiherbergi að ósk kærða.

Nokkru síðar hafi heyrt svakalegt öskur og fleiri í kjölfarið. Gestgjafi og félagi hans hafi reynt að opna en sakborningur neitað og sagt að um „kinky“ kynlíf væri að ræða. Í framhaldinu kom stúlkan hlaupandi úr herberginu allsnakin, hnigið í gólfið og greint frá því að henni hefði verið nauðgað.




Framburður fjögurra gesta til viðbóta er á sama veg, þau hafi heyrt öskur, stúlkan hafi komið hlaupandi nakin út og talað um nauðgun. 

Varðar tíu ára fangelsi

Að mati lögreglu er kærði undir sterkum grun að hafa með ofbeldi nauðgað stúlkunni í síðara málinu og undir rökstuddum grun um nauðgun í því fyrra. Stutt sé á milli meintra brota og með vísan til þess ætli lögregla að hann muni halda áfram brotum sínum meðan málum hans sé ekki lokið. Sterkur grunur sé að hann hafi gerst sekur um verknað sem varði allt að tíu ára fangelsi.

Kærði verður í gæsluvarðhaldi til 19. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×