Enski boltinn

Gylfi: Var búinn að vera að ræða nýjan samning í langan tíma

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi í baráttunni gegn Wayne Rooney í Nice í sumar.
Gylfi í baráttunni gegn Wayne Rooney í Nice í sumar. Vísir/Getty
„Þetta var ótrúlegur mánuður. Ég er viss um að hvorki ég né annar Íslendingur mun gleyma þessum mánuði á næstunni,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins, þegar hann var beðinn um að rifja upp sigur Íslands á Englandi í sumar.

Gylfi sem fagnaði 27 árs afmæli sínu í vikunni var í viðtali við Telegraph um helgina þar sem hann fór yfir víðan völl.

Sagðist hann eiga von á því að komandi kynslóðir muni halda áfram að koma á óvart á stóra sviðinu.

„Ungir leikmenn á Íslandi í dag eru mun teknískari en mín kynslóð. Okkar kynslóð fékk góða þjálfun með menntaða þjálfara en með betri aðstöðu og betri þjálfun fáum við betri leikmenn.“

Gylfi ræddi stuttlega ákvörðun sína að ganga til liðs við Reading aðeins fimmtán ára gamall.

„Það var nýbúið að byggja innanhús-völl í Hafnarfirði með gervigrasi en ég vissi að ég vildi spila á grasi allan ársins hring. Ég vissi að ég vildi vera atvinnumaður og að það myndi hjálpa mér,“ sagði Gylfi sem fékk góðan þjálfara strax hjá Reading í föður Frank Lampard.

Gylfi í leik með Swansea í haust.Vísir/Getty
„Lampard var leikmaður sem ég reyndi að líkjast bæði inná vellinum sem og utan hans. Hann var ótrúlegur fyrir framan markið og ég var svo heppinn að fá að vinna með pabba hans hjá Reading. Hann hjálpaði mér að skilja betur hvað þyrfti til að skora jafn mörg mörk og Lampard gerði.“

Gylfi sagðist lítið hafa hugsað út í sögusagnir um að hann væri á förum í sumar en hann skrifaði undir nýjan samning í Wales.

„Maður heyrði orðróma og vinir mínir spurðu hvort ég væri að fara að skrifa undir hjá Everton en ég er ánægður hjá Swansea. Ég hef verið að ræða nýjan samning í langan tíma því mér líður vel hér. Lífið í London var auðvitað ótrúlegt en andrúmsloftið er allt annað hér. Það er mun rólegra og fólkið er vinalegra,“ sagði Gylfi sem segir auðvelt að sjá hverjir vinir manns eru:

„Fjölskyldumeðlimir og vinir koma reglulega í heimsókn, sérstaklega þegar stórir leikir eru framundan en þú sérð hverjir vinir þínir eru þegar þeir biðja um miða á leik gegn West Brom,“ sagði Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×