Innlent

Læknir og hagfræðingur í veitingahúsageirann

Sæunn Gísladóttir skrifar
„Þeim mun meira sem við vorum búin að tala um þetta, þeim mun meira fannst okkur að við myndum bara sjá eftir því að láta ekki slag standa og fara út í þetta,“ segir Friðrik Ársælsson sem ásamt konu sinni Rakel Evu Sævarsdóttur og vinapari þeirra, Martinu Vigdísi Nardini og Jóni Helga Sen Erlendssyni, er stofnandi veitingastaðarins og verslunarinnar Borðsins sem verður opnuð á Ægisíðu 123 í næsta mánuði.

Það sem sameinar fjórmenningana, sem eru læknir, hagfræðingur, lögfræðingur og úr byggingageiranum, er matarást og skólaganga í Menntaskólanum við Reykjavík. Þau hafa þróað hugmyndina að staðnum frá því í fyrrasumar.

Um er að ræða eins konar take-away-stað sem sérhæfir sig í góðum mat unnum frá grunni úr góðu hráefni. „Fókusinn til að byrja með hjá okkur verður á kvöldmat og kvöldtraffík, fólk sem á leið hjá á leiðinni heim úr vinnu og getur sótt sér góðan mat. Svo býður staðurinn upp á ýmsa möguleika sem við komum til með að skoða,“ segir Friðrik. Á fimmtudögum til laugardags verður einnig boðið upp á bakaða eftirrétti.

„Frá svona 2006-2007 hefur þessi þróun átt sér stað að fólk vill eyða minni tíma í að elda, en vill borða góðan mat. Þetta er því í fyrsta lagi til að leysa vandamál sem við höfum bæði upplifað hvert í sínu lagi, eftir vinnu þegar maður fer að velta því fyrir sér hvað á að vera í matinn og mikill tími fer í að kaupa í matinn og elda, segir Jón Helgi.

Auk matsölu verður í húsnæðinu verslun og boðið upp á veisluþjónustu. „Við verðum með vörur sem við erum búin að sérvelja, allt frá sultum upp í potta. Vörurnar koma alls staðar að, en mest frá Bretlandi og Ítalíu. Svo ætlum við líka að vera með okkar eigin framleiðslu þegar fram líða stundir,“ segir Rakel Eva og bætir við að það sé ósk þeirra að eins konar hverfissamfélag myndist í versluninni.

Ef vel gengur í Vesturbænum stendur jafnvel til að opna í öðrum hverfum á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×