Innlent

Nýtti reynslulausnina til að taka þátt í vopnuðu ráni í Hafnarfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þýfið var að verðmæti tæplega 2 milljóna króna.
Þýfið var að verðmæti tæplega 2 milljóna króna. vísir/getty
Hæstiréttur úrskurðaði í dag að maður, sem hafði aðkomu að vopnuðu ráni í skartgripaverslun í Hafnarfirði í október á síðasta ári, skuli afplána 240 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut í mars árið 2014.

Maðurinn hafði hlotið reynslulausn í september fyrra til tveggja ára. Fram kemur í dómi héraðsdóms að sterkur grunur leiki á að hann hafi haft aðkomu að ráni sem framið var í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni við Lækjargötu í Hafnarfirði, fimmtudaginn 22. október 2015.

Sjá einnig: Rán um hábjartan dag: Annar Gullsmiðuræninginn í haldi lögreglu

Maðurinn á að hafa tekið við þýfinu sem samverkamanns hans, vopnaðir exi, rændu úr versluninni en annarra ræningja á að hafa skuldað manninum pening á þeim tíma. Ránsfengurinn var alls að andvirði um 1.950.200 króna.

Við húsleit hjá manninum fundust kannabisefni, amfetamín og lásbogi sem maðurinn sagði að hann hafi tekið upp í skuld frá öðrum aðila.

Greiddi fyrir þýfið með fé og fíkniefnum

Maðurinn játaði við skýrslutöku að hafa sótt ræningjana eftir ránið en neitaði þó að hafa tekið við þýfinu, sem og að hafa átt nokkra aðkomu að skipulagningu ránsins. Þessu andmæltu samverkamenn hans og sögðu hann hafa greitt fyrir það með með fíkniefnum og peningum. Því til stuðnings var hringur sem fannst á dvalarstað mannsins sem átti uppruna sinn að rekja til skartgripaverslunarinnar í Hafnarfirði.

Sjá einnig: Skartgriparán í Hafnarfirði: Annar maður handtekinn með afbrotaferil og fíkniefnatengda sögu

Af símagögnum var þá einnig ljóst að maðurinn hafði verið í mjög „miklum samskiptum“ við annan ræningjanna, bæði fyrir ránið og strax eftir það.

„Fallast má á það með lögreglu að gögn málsins eins og þau liggja nú fyrir séu þess eðlis að sterkur grunur þyki fram kominn um að kærði hafi, eftir að honum var veitt reynslulausn, gerst sekur um háttsemi sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi,” segir í dómi Héraðsdóms og manninum því gert að afplána eftirstöðvar fyrrnefndar fangelsisrefsingar sem hann hlaut í mars árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×