Innlent

Lögreglumaðurinn veitti rannsakendum aðgang að banka- og símagögnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglumaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem grunaður er um óeðlileg samskipti við brotamenn, er sagður hafa fúslega veitt lögreglu aðgang að banka- og símagögnum sínum. Þetta kom fram í máli Ómars Arnar Bjarnþórsson, verjanda lögreglumannsins, sem mætti í viðtal um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni nú síðdegis.

Ómar Örn Bjarnþórsson verjandi lögreglumannsins.
Ómar sagði lögreglumanninn hafa neitað öllum sakargiftum með ítarlegum hætti við skýrslutöku hjá lögreglu í dag, það er að þiggja greiðslur fyrir að veita brotamönnum upplýsingar. Ómar sagði lögreglumanninn hafa verið leystan úr haldi strax að lokinni skýrslutöku í dag.

„Ég er feginn því að þetta fyrsta skref sé frá, að hann sé laus úr gæsluvarðhaldi. Svo verður rannsókn lögreglunnar að hafa sinn gang. Lögreglan er núna að leita af sér einhvern grun, fara yfir bankagögn og símagöng sem hann hefur fúslega veitt aðgang að. Maður verður bara að bíða rólegur meðan það er í rannsókn og svo mun þetta allt saman skýrast og koma í ljós,“ sagði Ómar. 

Hann sagðist hafa fengið að sjá gögn lögreglu í þessu máli að takmörkuðu leyti. Þau hafi verið kynnt fyrir honum á sama tíma og þau eru kynnt fyrir umbjóðanda hans. Ómar sagðist eiga rétt á að fá öll rannsóknargögn málsins en það hafi ekki gerst enn, en sagðist hafa fengið þær upplýsingar að hann muni fá þau von bráðar. 

Vísir greindi frá því fyrr í dag að karlmaður á fertugsaldri, sem grunaður er um að vera samverkamaður lögreglumannsins, hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15 janúar. Hann hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×