Innlent

Árleg bráðsmitandi magapest herjar á landann

Birgir Olgeirsson skrifar
Besta vörnin gegn magapestum er að gæta vel að hreinlæti
Besta vörnin gegn magapestum er að gæta vel að hreinlæti Vísir/Getty
„Það er ekkert nýtt, hún er búin að vera það í einhverja mánuði og er alltaf viðloðandi,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá embætti landlæknis, um magapestina sem fer nú um landið. Rætt var við Gunnar Jóhannsson lækni í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sem sagði bráðsmitandi magapest ganga manna á milli um þessar mundir og leggjast hvað verst á eldra fólk.

„Þetta er bara árlegt og ómögulegt að segja hvort þetta er meira en áður, það virðist ekki vera. Menn verða alltaf jafn hissa þegar þetta kemur og halda að þetta hafi aldrei gerst áður,“ segir Þórólfur. Hann segir að ef litið er á þessar pestir faraldsfræðilega þá ná þær hápunkti á vorin og í kringum desember.

„Þetta hefur verið þannig á síðustu árum og manni virðist þetta vera þannig að þetta eru nokkrar veirur sem alltaf eru að valda þessu,. Helsta veiran sem hefur verið undanfarið er þessi nóróveira sem hefur verið mikið í fjölmiðlum og bæði að valda sýkingum inni á stofnunum og úti í samfélaginu,“ segir Þórólfur.

Besta vörnin gegn slíku er að gæta vel að hreinlæti, til að mynda með handþvotti. „Og svo þarf að passa hvað maður setur ofan í sig,“ segir Þórólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×