Erlent

Slíta stjórnmálasambandi við Íran

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Utanríkisráðherra Sádí-Arabíu, Adel al-Jubeir, á blaðamannafundinum í kvöld.
Utanríkisráðherra Sádí-Arabíu, Adel al-Jubeir, á blaðamannafundinum í kvöld.
Stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa ákveðið að slíta stjórnmálasambandi við Íran. Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra landsins á blaðamannafundi í dag.

Þá er erindrekum Írana í Sádí-Arabíu gert að yfirgefa landið á næstu 48 klukkustundum. Utanríkisráðherrann, Adel al-Jubeir, sagði að stjórnvöld í Riyadh myndu ekki leyfa hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu að grafa undan öryggi Sádí-Araba.

Sjá einnig: Aftökur draga dilk á eftir sér

Ákvörðunin kemur í kjölfar hatrammra mótmæla við sendiráð Sádí-Arabíu í Teheran, höfuðborg Íran, þar sem hópur fólks kom saman til að mótmæla aftökum Sádí-Araba á 47 einstaklingum á laugardag. Eldur var lagður að byggingunni og til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu. Yfirvöld í Íran hafa nú breytt nafni götunnar sem sendiráðið er við og er hún nú nefnd eftir al-Nimr.

Meðal þeirra sem teknir voru af lífi var dáður sjíti, Sheikh Nimr al-Nimr, sem var einn helsti gagnrýnandi sádí-arabískra stjórnvalda. Hann var handtekinn í austurhluta landsins árið 2012. Austurlönd nær hafa logað í mótmælum síðastliðinn sólarhring eftir að greint var frá aftökunum í gær.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar og aðrir stjórnmálamenn hafa fordæmt aftökurnar. Þeirra á meðal er Ayatollah Ali Khameni, æðsti leiðtogi Írans, , sem hefur hótað stjórnvöldum í Sádí-Arabíu „guðlegri hefnd.“


Tengdar fréttir

Aftökur draga dilk á eftir sér

Mikil ólga er í Austurlöndum nær vegna aftöku Sádí-Araba á 47 einstaklingum, þar af á einum mikilsmetnum trúarleiðtoga sem var einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda í hinu íhaldssama ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×