Innlent

Skíðasvæðin skarta sínu fegursta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fimur kappi brunar niður hlíðar Bláfjalla en skíðasvæðið þar er opið í dag.
Fimur kappi brunar niður hlíðar Bláfjalla en skíðasvæðið þar er opið í dag. vísir/vilhelm
Öll helstu skíðasvæði landsins eru opin í dag og útlit er fyrir gott veður til skíðaiðkunar.

Í Bláfjöllum er opið í dag frá klukkan 10 til 17 og gengur þar á með éljum til hádegis. Þar hefur snjóað mikið síðustu sólarhringa og samkvæmt heimasíðu svæðisins er færið troðin þurrð.

Skíðasvæðið í Tindastól verður að sama skapi opið í dag, frá klukkan 11 til kl 16. Veðrið þar var nú skömmu fyrir klukkan 9: „SSV 5 metrar á sekúndu, -5,5c og heiðskýrt“ og skíðafæri gott.

Þá er einnig opið í Seljalandsdal við Ísafjörð frá klukkan 10 og samkvæmt athugunum er vegurinn þar „í lagi,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá forstöðumanni svæðisins. Veðrið þar er gott, stjörnubjart, hægur vindur og hiti undir frostmarki. Þó er skíðasvæðið í Tungudal lokað.

Skíðasvæðið á Siglufirði er opið í dag frá klukkan 11 til 16. Veðrið um klukkan 8:30 var „SSA 2-13 metrar á sekúndu, frost 1 stig og heiðskírt,“ er fram kemur í tilkynningu og færið er unnið harðfenni.

Skíðasvæðið á Dalvík er opið í dag frá klukkan 10 til 16, rétt eins og Hlíðarfjall við Akureyri. Þar er hið besta skíðaveður, hiti í frostmarki, hægur vindur og gott skíðafæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×