„Ég vil þakka allri þjóðinni fyrir. Þetta er bara ólýsanlegt, eins og draumur. Við náum ekki að vakna aftur,“ segir Xhulia Pepaj.
Fjölskyldurnar tvær, Pepaj og Phellam, lentu hér á landi nú rétt fyrir klukkan sex í kvöld. Í báðum fjölskyldum eru langveik börn, þeir Kevi Pepaj, sem er með ólæknandi slímseigjusjúkdóm og Arjan Phellam, sem er með hjartagalla. Þeim var vísað úr landi 10. desember síðastliðinn og vakti það nokkra reiði í samfélaginu. Nokkrum dögum síðar veitti Alþingi þeim íslenskan ríkisborgararétt.
Kastriot Pepaj, faðir Kevis, tók undir orð eiginkonu sinnar og sagðist afar þakklátur. „Við vonuðumst eftir stuðningi, en þetta kom okkur ótrúlega á óvart. Við bjuggumst ekki við svo miklum stuðning þannig að þetta er bara ólýsanleg tilfinning. Það sem Hermann gerði fyrir mig er eitthvað sem ég myndi aldrei búast við. Hann bjargaði lífi sonar míns,“ sagði hann og bætti við að Kevi hafi það gott.
Phellam-fjölskyldan sagðist jafnframt afar þakklát. Líf þeirra hafi nú breyst til frambúðar. „Þetta er kraftaverk,“ sögðu þau.