Viðskipti innlent

Icesave-kröfurnar voru greiddar í gær

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Samtals voru greiddar 706 milljónir evra, 374 milljónir punda og 306 milljónir dala.
Samtals voru greiddar 706 milljónir evra, 374 milljónir punda og 306 milljónir dala. Vísir/Getty Images
Icesave-kröfur Breta og Hollendinga voru greiddar úr slitabúi gamla Landsbankans í gær. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi búsins. „Það er búið að greiða upp allar forgangskröfurnar og lang stærstur hlutinn voru Icesave kröfurnar,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitabúsins.

Í gær fékk slitabúiðLBI hf., undanþágu frá Seðlabankanum frá fjármagnshöftunum í samræmi við nauðasamninga bankans sem samþykktir voru 25. desember síðastliðinn. Í kjölfarið voru greiddar út kröfur að andvirði 210,6 milljarða íslenskra króna á gengni gærdagsins.

Samtals voru greiddar 706 milljónir evra, 374 milljónir punda og 306 milljónir dala.

Icesave-kröfurnar voru til komnar vegna Icesave netreikninga sem Landsbankinn bauð upp á í Bretlandi og Hollandi en umtalsvert fé safnaðist inn á reikningana. Við fall Landsbankans haustið 2008 var hins vegar ekki hægt að greiða kröfurnar út og greiddu því innustæðutryggingasjóðir í löndunum tveimur út hluta krafnanna. Fyrir vikið eignuðust sjóðirnir kröfur á hendur bankanum.

Eins og flestir muna var Icesve-málið eitt heitasta deilumálið hér á landi eftir hrun og beitti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tvívegis neitunarvaldi sínu vegna samninga sem Alþingi samþykkti um endurgreiðslu og ábyrgð ríkisins á kröfunum og vísaði þeim til þjóðarinnar sem hafnaði samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Icesave-málið endaði svo fyrir EFTA-dómstólnum vegna stefnu Hollendinga og Breta þar sem Íslandi var dæmdur sigur í málinu og íslenska ríkið sýknað af kröfum landanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×