„Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi vinnur að rannsókn málsins með aðstoð Tæknideildar lögreglunnar og Sérsveit ríkislögreglustjóra.
„Ekki verður hægt að segja með vissu hvað olli slysinu fyrr en niðurstöður tæknirannsóknar og annarra þátta liggja endanlega fyrir,“ segir í færslu lögreglu.
Bannað er að kafa í Silfru á meira en átján metra dýpi. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að konan hafi ekki farið á mikið dýpi.
„Hún virðist hafa lent í einhverju sogi eða niðurstreymi, hefur mögulega farið inn í sprungu og verið svolítið falin. Á botninum lágu hylki og eitthvað fleira.“
Við köfun á vegum ferðaþjónustufyrirtækis
Konan var við köfun á vegum ferðaþjónustufyrirtækis og með leiðsögumann með sér. Leiðsögumaðurinn og annar úr hópi kafara náðu konunni upp af botninum.
„Við rannsökum hvers vegna hún sökk, hvað gerðist, hvort farið var eftir reglum og hvort búnaðurinn hafi verið í lagi. Tæknideild lögreglunnar fer yfir búnaðinn,“ segir Þorgrímur Óli og vill ekki gefa upp um hvaða ferðaþjónustufyrirtæki var að ræða.
Ekki fyrsta slysið
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem köfunarslys verður í Silfru, þetta er í raun þriðja alvarlega slysið á síðustu sex árum.
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir hátt á þriðja tug þúsunda ferðamanna kafa í Silfru á ári og segir mikilvægt að nú setjist allir aðilar, sem hafi aðkomu að þessum málum, niður og ræði það hvort herða þurfi reglur vegna köfunar í gjánni.
„Það þarf að fara vandlega yfir þetta, hvort það þurfi frekari fjöldatakmarkanir eða strangari reglur. Við þurfum hreinlega að endurmeta stöðuna og skoða það hvort þetta er stöðugt sama hættan sem veldur slysum,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið í morgun.