Viðskipti innlent

Telja markaðsvirði N1 milljarði of hátt

jón hákon halldórsson skrifar
Á meðal helstu áhættuþátta í rekstri N1 er gengisáhætta.
Á meðal helstu áhættuþátta í rekstri N1 er gengisáhætta. vísir/valli
Mat Capacent á virði olíufélagsins N1 er einum milljarði lægra en markaðsvirði félagsins var við lokun markaða í gær. Samkvæmt verðmati Capacent er virði félagsins 15,37 milljarðar króna. Markaðsvirði félagsins, þegar matið var gert, var 16,57 milljarðar en 16,38 milljarðar í gær.

Capacent segir að vöxtur og hagnaður til framtíðar séu lykilatriði við mat á virði félagsins. „Vöxtur með núverandi viðskiptamódeli verður að teljast frekar ólíklegur. Aukinn hagnaður getur orðið til með verulegri lækkun á kostnaði eða þá að, og kannski líklegar, við áherslubreytingar varðandi vörur og viðskiptavini,“ segir í verðmatinu. Þá segir að margt bendi til þess að framtíðin í sölu á jarðefnaeldsneyti, ekki síst fyrir bifreiðar, sé ekki björt. Þó ekki séu miklar breytingar í vændum á allra næstu árum. Capacent segir að veruleg óvissa ríki um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir félagið. Hæfileiki til að takast á við breyttar aðstæður verði lykilatriði fyrir framtíð félagsins.

Í verðmati Capacent segir að árið 2014 hafi markaðshlutdeild N1 á eldsneytismarkaði á Íslandi verið 37%. Helstu samkeppnisaðilar séu Olís, Skeljungur og Atlantsolía. „Samkeppnisumhverfið gæti þó breyst fljótlega þar sem tvær smásölukeðjur, Costco og Kaupás, hafa lýst yfir áhuga á að selja eldsneyti til bifreiða við útsölustaði sína.“

Á meðal helstu áhættuþátta í rekstri félagsins segir Capacent að sé gjaldeyrisáhætta. Eldsneyti er keypt í bandarískum dollurum en að mestu selt í íslenskum krónum. Þessari áhættu sé mætt með sérstökum samningum og lágri birgðastöðu. „Sveiflur í eldsneytisverði skapa einnig áhættu sem öðru fremur er háð stærð og aldri birgða. En þrátt fyrir töluverð skammtímaáhrif eru sveiflur í verði á gjaldeyri og eldsneyti ekki líklegar til að hafa veruleg langtímaáhrif á reksturinn,“ segir í matinu. Það sé þó vert að geta þess að téðar sveiflur geti haft veruleg áhrif á hagnaðarhlutföll með þeim afleiðingum að samanburður milli ára getur verið verulega skakkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×