Sport

Gunnar: Barnalegt að kenna mér um að einhverjir strákar sláist á skólalóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson segir sitt sport ekki fyrir alla.
Gunnar Nelson segir sitt sport ekki fyrir alla. vísir/getty
Gunnar Nelson, fremsti bardagakappi Íslendinga, gefur lítið fyrir ásakanir Hafsteins Karlssonar, skólastjóra Salaskóla í Kópavogi, sem komu fram í DV, að það sé honum að kenna að tvö sett af ungum strákum slógust eftir síðasta bardaga hans.

Tveimur dögum eftir að Gunnar barðist síðast við Brasilíumanninn Demian Maia í desember í fyrra komu upp tvö tilfelli þar sem drengir á aldrinum tíu til ellefu ára „slógu hvorn annan hnefahöggum í andlitið“ eins og það er orðað í DV.

„Þetta er hreinn viðbjóður og því miður er fullt af litlum drengjum sem horfa á þetta á vefnum án vitundar foreldra sinna. Þarna sjá þeir Gunnar Nelson sem hefur verið hafinn upp til skýjanna hér á landi fyrir þetta ofbeldi,“ sagði Hafsteinn við DV.

Gunnar vísar þessum ásökunum til föðurhúsanna í viðtali við MMAFréttir og segir þetta vera barnaleg ummæli.

„Það er barnalegt að reyna að kenna einhverjum eins og mér, sem er að stunda mína íþrótt, um að einhverjir tveir strákar hafi verið að slást á skólalóð. Slagsmál hafa viðgengist helvíti lengi og langt fyrir mína tíð,“ segir Gunnar.

„Ég hef oft sagt það áður að það er kannski ekki fyrir alla að horfa á þetta sport. Foreldrar eiga að dæma um það eða stjórna því hvort börnin sín eigi að horfa á þetta ekki og hvort þau hafi þroska til að skilja hvað er að gerast. Að ætla að kenna Michael Schumacher um að einhver hafi keyrt of hratt niður í bæ er eins asnalegt og það hljómar,“ segir Gunnar Nelson.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×