Erlent

Rússar segja Litvinenko-skýrsluna hlutdræga og ógagnsæja

Atli Ísleifsson skrifar
Andrei Lugovoi situr nú á rússneska þinginu en er grunaður um að hafa eitrað fyrir Litvinenko.
Andrei Lugovoi situr nú á rússneska þinginu en er grunaður um að hafa eitrað fyrir Litvinenko. Vísir/AFP
Rússnesk stjórnvöld segja bresku skýrsluna um morðið á fyrrverandi KGB-manninum Aleksandr Litvinenko vera hlutdræga og ógagnsæja. Annar mannanna sem sakaður er um að hafa eitrað fyrir Litvinenko segir ásakanirnar þvælu.

Breskir saksóknarar hafa áður sagt tvo rússneska leyniþjónustumenn hafa eitrað fyrir hinum 43 ára Litvinenko með geislaverka efninu póloni-210 árið 2006.

Í skýrslunni kemur fram að líklegast sé að Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Nikolai Patrushev, yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar, hafi gefið grænt ljós á morðið.

Breski innanríkisráðherrann, Theresa May, segir að sendiherra Rússlands í Bretlandi verði kallaður á fund vegna skýrslunnar þar sem óánægju Breta vegna tregðu Rússa til að aðstoða við rannsóknina verður ítrekuð.

May sagði jafnframt að breska þingið myndi frysta eignir hjá þeim sem málinu tengjast. Þá mun David Cameron forsætisráðherra ræða málið við Pútín við fyrsta mögulega tækifæri.

Rússnesk stjórnvöld ítrekuðu í morgun að þeir myndu ekki framselja þá Andrei Lugovoi og Dmitry Kovtun sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Litvinenko. Lugovoi sagði skýrsluna aumkunarverða tilraun Breta til að draga fram gömul mál til að þjóna eigin pólitískum markmiðum sínum. Hann neitar því að hafa komið nálægt dauða Litvinenko.

Lugovoi situr nú sjálfur á rússneska þinginu og segir niðurstöður skýrslunnar alls ekki hafa komið á óvart. „Eins og við áttum von á. Ekkert sem kemur á óvart. Niðurstaðan sýnir enn og aftur fram á óvinveitta afstöðu breskra stjórnvalda til Rússa, þröngsýni þeirra og óvilja til að finna raunveruleg orsök dauða Litvinenko.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×