Viðskipti innlent

Kaupmáttur og stórir árgangar hafa áhrif

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í nýrri greiningu hagfræðideildar Landsbankans á fasteignamarkaði kemur fram að verulega vanti á að framboð íbúða anni eftirspurn.
Í nýrri greiningu hagfræðideildar Landsbankans á fasteignamarkaði kemur fram að verulega vanti á að framboð íbúða anni eftirspurn. Fréttablaðið/Vilhelm
Óvíst er að fjölgun byggingarleyfa í borginni á síðasta ári og áætlanir um aukna íbúðabyggingu hafi áhrif á hækkun fasteignaverðs. Hagfræðideild Landsbankans gaf í gær út spá um 8,0 prósenta hækkun fasteignaverðs á ári næstu þrjú árin.

Þá er í greiningu deildarinnar bent á að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 1,4 prósent á milli mánaða í desember og um 9,4 prósent frá fyrra ári.

„Þetta eru mestu verðhækkanir milli ára sem sést hafa frá árinu 2007,“ segir þar.

Höfuðborgarsvæðið sé hins vegar ekki með sérstöðu þegar kemur að hækkunum, þótt þær hafi verið mismunandi á milli bæja. „Sums staðar var hækkunin meiri eða álíka og á höfuðborgarsvæðinu.“

Reykjavíkurborg hefur greint frá því að á síðasta ári hafi verið gefin út nærri tvöfalt fleiri byggingarleyfi en árin þar á undan. Þá lagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fram á fundi borgarráðs í síðustu viku lista yfir næstu fjölbýlishúsalóðir sem borgin hafi til úthlutunar, en þar eru um 1.200 íbúðir, sem bætast við framkvæmdir á vegum einkaaðila.

Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild HÍ og efnahagsráðgjafi Virðingar, segir ýmsa þætti ýta undir hækkandi fasteignaverð. Aukið framboð í borginni hafi lítil áhrif til skemmri tíma vegna þess hve fasteignir séu lengi í byggingu. „Þeir ná ekki að afhenda íbúðir fyrr en á næstu einu til tveimur árum,“ segir hann.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur
Þá hafi fleiri þættir áhrif á íbúðaverð en framboðið. Meðal þess sem nú spili inn í sé aukning kaupmáttar og hærri laun.

„Þetta er með mestu aukningu kaupmáttar sem við höfum séð í langan tíma,“ segir hann. Horfa þurfi aftur til áranna 1997 og 1998 til að sjá viðlíka aukningu. „Og það hefur náttúrlega áhrif á fasteignamarkaðinn. Að jafnaði hafa Íslendingar eytt um það bil einum fimmta af tekjum sínum í húsnæði.“

Að auki hafi áhrif að núna séu stórir árgangar að detta inn á þrítugsaldurinn, sem hafi áhrif á eftirspurnina. „Þessir tveir þættir, hækkun launa og aukin eftirspurn, setja töluverðan þrýsting á fasteignamarkaðinn.“

Við bætist svo að töluverðum fjölda íbúða hafi verið kippt út af fasteigna- og leigumarkaði vegna Airbnb og svo hafi byggingariðnaður verið mun seinni í gang en búist hafi verið við.

„Hann datt alveg niður og við misstum allt of mikið af fólki og tækjum úr landi á sínum tíma. Það vantar bara verktakafyrirtæki.“ Þá bætist aukinn launakostnaður líka við hækkandi byggingarkostnað, sem einnig setji þrýsting á verð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×