Innlent

Sigmundur Davíð fer til Líbanon

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð er á leiðinni til Líbanon.
Sigmundur Davíð er á leiðinni til Líbanon. Vísir/Daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun í dag ferðast til Líbanon þar sem hann mun kynna sér aðstæður flóttamanna á svæðinu.

Mun forsætisráðherra heimsækja ýmsar stofnanir sem vinna að málefnum flóttamanna á borð við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Sigmundur Davíð mun einnig heimsækja flóttamannabúðir á vegum Flóttamannahjálparinnar.

Talið er að um tvær milljónir sýrlenskra flóttamanna hafist nú við í flóttamannabúðum í Líbanon auk 500 þúsund palestínskra flóttamanna.

Ráðgert að forsætisráðherra muni funda með forsætisráðherra Líbanon þar sem rætt verður um samskipti og viðskipti ríkjanna og um aðstæður flóttamanna í Líbanon, kynna sér þau áhrif sem átökin í Sýrlandi og gríðarlegur fjöldi flóttamanna þaðan hefur haft á líbanskt samfélag og afla upplýsinga um hvernig alþjóðleg framlög geta best komið að liði.

Síðar í vikunni heldur Sigmundur Davíð til London þar sem hann mun sækja sérstakan leiðtogafund um málefni Sýrlands í London í boði forsætisráðherra Bretlands, Þýskalands, Noregs og Kúveit auk þess sem hann mun taka þátt í kynningu í sendiráði Íslands í tilefni af markaðssetningu og sölu íslensks skyrs í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×