Erlent

Segja Rússa og stjórnarherinn beita klasasprengjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldri maður sem sagður er hafa særst í klasasprengjuárás nærri Douma. Hann lést af sárum sínum.
Eldri maður sem sagður er hafa særst í klasasprengjuárás nærri Douma. Hann lést af sárum sínum. Vísir/EPA
Mannréttindasamtökin Huma Rights Watch segja Rússa og stjórnarher Sýrlands beita klasasprengjum í átökum í Sýrlandi. Frá 26. janúar eru þeir sagðir hafa gert minnst 14 árásir með slíkum sprengjum. Í þeim eiga minnst 37 borgarar að hafa látið lífið og tugir særst.

Meðal þeirra látnu eru sex konur og níu börn. Samtökin segja þó líklegt að bæði fjöldi árása og látinna sé í raun hærri.

Klasasprengjur eru taldar vera sérstaklega hættulegar borgurum þar sem þær varpa miklum fjölda smárra sprengja yfir stórt svæði. Þá springa sprengjurnar oft á tíðum ekki við lendingu og valda dauða og meiðslum á borgurum yfir langt tímabil.

Sameinuðu þjóðirnar bönnuðu notkun slíkra sprengja árið 2008, en hvorki Rússar né Sýrland hafa skrifað undir bannið. Það hafa Bandaríkin heldur ekki gert. HRW kalla eftir því að þjóðir heimsins vinni saman að því að koma í veg fyrir notkun klasasprengja í Sýrlandi.

Samtökin segja notkun þeirra hafa færst í aukana með árásum Rússa og stjórnarhersins við borgina Aleppo, sem nú hefur verið umkringd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×